Fótbolti

Götze vildi spila fyrir Guardiola

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ástæða þess að Mario Götze ákvað að taka tilboði Bayern München var fyrst og fremst að spila undir stjórn Pep Guardiola.

Þetta fullyrða þýskir fjölmiðlar í dag en Guardiola mun taka við Bayern nú í sumar. Götze er tvítugur leikmaður Dortmund sem hefur lengi verið talinn einn allra efnilegasti leikmaður Evrópu.

Guardiola setti fram óskalista um leikmenn sem hann vildi fá og efstur á honum var Götze. Næstu nöfn á listanum voru Brasilíumaðurinn Neymar og svo Julian Draxler, nítján ára leikmaður Schalke.

Í janúar síðastliðnum sagði Götze að hann myndi ekki fara frá Dortmund fyrr en eftir tímabilið 2014. En það breyttist þegar að Bayern kom til sögunnar. Dortmund neyddist til að taka tilboði Bayern sem bauð tilgreinda lágmarksupphæð samkvæmt samningi Götze.

Leikmaðurinn sjálfur tók svo tilboði Bayern sem er sagt borga honum allt að 12,5 milljónir evra - 1,9 milljarða króan - í laun á ári. Götze mun þegar hafa skrifað undir fjögurra ára samning við Bayern.

Bayern greiðir Dortmund 37 milljónir evra (5,6 milljarða) en Götze var samningsbundinn síðarnefnda félaginu til 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×