Körfubolti

Snæfell þarf að gera það sem þeir hafa ekki gert í þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Stjarnan tekur á móti Snæfelli í kvöld í fjórða leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Dominos-deild karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í Ásgarði í Garðabæ, hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Stjarnan tryggir sér sæti í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn með sigri en vinni Snæfell leikinn á eftir verður oddaleikur í Stykkishólmi á mánudagskvöldið.

Tölfræðin er þó ekki með Snæfellsliðinu í þeim efnum. Stjarnan er búið að vinna alla heimaleiki sína í úrslitakeppninni í ár og það eru liðin þrjú ár síðan að Snæfell vann síðast útileik í úrslitakeppni.

Snæfellsliðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta vorið 2010 með mögnuðum 36 stiga stórsigri í Keflavík, 105-69, í hreinum úrslitaleik um titilinn. Þetta er síðasti sigurleikur Snæfells á útivelli í úrslitakeppninni.

Snæfellsliðið er búið að tapa sex útileikjum í röð í úrslitakeppni þar af tveimur fyrstu útileikjum sínum í úrslitakeppninni í ár.



Síðustu útileikir Snæfells í úrslitakeppninni

8 liða úrslit 2011

67-77 tap á móti Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði í leik 2

Undanúrslit 2011

87-93 tap á móti Stjörnunni í Ásgarði í Garðabæ í leik 2

8 liða úrslit 2012

77-82 tap á móti Þór í Þorlákshöfn í leik 1

65-72 tap á móti Þór í Þorlákshöfn í leik 3

8 liða úrslit 2013

90-105 tap á móti Njarðvík í Ljónagryfjunni í Njarðvík í leik 2

Undanúrslit 2013

86-90 tap á móti Stjörnunni í Ásgarði í Garðabæ í leik 2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×