Körfubolti

Ný heimildarmynd um Dr. J

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julius Erving.
Julius Erving. Mynd/Nordic Photos/Getty
Julius Erving, betur þekktur sem Dr. J, er einn af þekktustu NBA-leikmönnum sögunnar og nú hefur NBA TV ákveðið að heiðra kappann með því að framleiða heimildarmynd um feril hans í tilefni af 30 ára afmæli fyrsta og eina meistaratitils hans.

"The Doctor" mun vera frumsýnd 10. júní næstkomandi eða inn á milli leikja í lokaúrslitum NBA-deildarinnar. Myndin verður 90 mínútna löng og þar má meðal annars sjá svipmyndir frá ferli hans í ABA-deildinni.

Dr. J spilaði í ABA-deildinni frá 1971 til 1976 (Virginia Squires og New York Nets) en kom til Philadelphia 76ers árið 1976 og lék með liðinu til ársins 1987.

Dr. J er einn af fyrstu alvöru háloftafuglum körfuboltans en þessi 201 sentímetra hái framherji var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar árið 1981. Hann var valinn í Stjörnuleikinn öll ellefu ár sín í NBA-deildinni og mörg af tilþrifum hans eru enn sýnd reglulega á NBA TV.

„Ef þú hefur ekki spilað á móti honum eða séð hann þegar hann var upp á sitt besta þá getur þú ekki áttað þig á hversu góður hann var í raun," sagði Pat Riley, forseti Miami Heat, um Julius Erving.

Julius Erving skoraði 22,0 stig og tók 6,7 fráköst að meðaltali í 836 leikjum í NBA-deildinni en hann var með 18,4 stig, 7,6 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni 1983 þegar hann varð meistari í fyrsta og eina skiptið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×