Körfubolti

Fyrirliði Njarðvíkinga fór úr hnélið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Helgi Jónsson.
Ólafur Helgi Jónsson. Mynd/Heimasíða Njarðvíkur
Ólafur Helgi Jónsson, fyrirliði hið unga liðs Njarðvíkinga í Dominos-deild karla, gæti verið frá í marga mánuði eftir að hann meiddist illa í unglingaflokksleik á móti KR á dögunum. Þetta kemur fram í Víkurfréttum.

Ólafur Helgi lenti illa í leiknum og fór við það úr hnélið. Það er ljóst að aftari krossbandið er skaddað en hann bíður nú frekari frétta eftir að hafa verið í myndatökum og skoðunum að undanförnu.

„Ég vil þakka fyrir þann óendanlega stuðning sem ég hef fengið frá fjölskyldu, leikmönnum, þjálfurum og fólki í kringum mig sem hefur hjálpað mér gríðarlega mikið og mun hjálpa mér áfram í gegnum þetta. Ég kem tvíefldur til baka fyrir fánann og UMFN,“ sagði Ólafur Helgi í samtali við Víkurfréttir.

Ólafur Helgi Jónsson var lengi í gang í vetur en sýndi hversu hann er öflugur á seinni hluta tímabilsins. Hann var með 11,5 stig að meðaltali í síðustu þrettán leikjum tímabilsins og var með 11,7 stig í einvíginu á móti Snæfelli í átta liða úrslitunum.

Ólafur Helgi er mikill stemningsleikmaður og orkubolti sem smitar út frá sér með leikgleði sinni og baráttu auk þess að vera góð þriggja stiga skytta. Það væri mikill missir fyrir Njarðvíkinga ef hann verður lengi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×