Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Stjarnan 108-84 | Grindavík leiðir 1-0

Kolbeinn Tumi Daðason í Grindavík skrifar
Mynd/Vilhelm
Grindvíkingar hafa tekið forystuna í einvíginu gegn Stjörnunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta. Þeir gulu og glöðu unnu góðan heimasigur í röstinni í kvöld 108-84.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur en hnífjafn. Stjarnan komst í 7-0 en heimamenn svöruðu með 17-2 kafla. Mest var forskot Grindvíkinga ellefu stig og fór Aaron Broussard á köflum á kostum. Garðbæingar voru þó aldrei langt undan og frábær lokakafli í hálfleiknum skilaði liðinu tveggja stiga veganesti inn í klefa, 48-46.

Eftir þrjá leikhluta leiddu Grindvíkingar 74-72. Zeglinski og Sigurður Þorsteinsson voru báðir með fjórar villur auk þess sem Ryan Pettinella var farinn heim til sín vegna veikinda. Þrátt fyrir það kveiktu Grindvíkingar hreinlega í húsinu á fyrstu mínútum fjórðungsins.

Þeir skoruðu fyrstu þrettán stigin og lögðu þar með grunninn að góðum sigri. Stjörnumenn reyndu að koma sér inn í leikinn með skotum fyrir utan en ekkert rataði ofan í. Broussard og Jóhann Árni slökktu síðasta vonarneistann með rándýrum þristum og Garðbæingar hengdu haus á vellinum sem og í stúkunni.

Aaron Broussard var besti maður vallarins í kvöld. Bæði var hann stigahæstur með 39 stig auk þess að taka 12 fráköst. Jóhann Árni skoraði 26 stig og átti frábæran leik.

Hjá gestunum var Jarrid Frye sá eini sem spilaði af eðlilegri getu með 28 stig og 12 fráköst. Justin Shouse og Brian Mills áttu sína spretti en framlagið af bekknum var lítið. Fannar Helgason tók aðeins fjögur fráköst í leiknum og þarf að skora meira en tvö stig undir körfunni.

Teitur Örlygsson: „Þeir áttu þetta bara skilið. Spiluðu af miklu meiri hörku heldur en við. Maður hafði á tilfinningunni að okkar menn héldu að þetta yrði auðvelt þegar Grindvíkingar lentu í villuvandræðum. Mínir menn slöppuðu af,“ sagði svekktur Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, í leikslok.

„Sjálfstraustið var gjörsamlega allt þeirra. Það skipti engu máli hver skaut boltanum hjá þeim því það fór allt ofan í. Þá er lítið annað að gera en að bíða eftir næsta leik,“ sagði Teitur um fjórða leikhluta sem heimamenn unnu 34-12.

Þrátt fyrir fjarveru Ryan Pettinella og villuvandræða Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar tók Fannar Helgason aðeins fimm fráköst í leiknum. Fjarvera þeirra stóru háðu þeim gulu lítið sem ekkert.

„Á tímabili voru þeir með fimm bakverði inni á vellinum og gátu gert það því þeir voru að skjóta boltanum svo vel. Það voru náttúrulega engin fráköst í seinni hálfleik því þeir skoruðu bara í hverri sókn fannst mér,“ sagði Teitur.

Jóhann Árni: Aðstæður voru fáránlega erfiðar„Hlutirnir bara gengu upp. Við vorum að stoppa þá og skora hinum megin í fáránlega erfiðri aðstæðu. Sammy (Zeglinski) og Siggi (Sigurður Gunnar Þorsteinsson) voru báðir komnir með fjórar villur og höfðu spilað þannig næstum því allan fjórða leikhluta,“ sagði kampakátur Jóhann Árni Ólafsson.

Leikurinn var afar kaflaskiptur þar sem bæði lið áttu frábæra spretti og skildu andstæðinga sína eftir í rykinu. Jóhann Árni virtist alltaf eiga ás uppi í erminni líkt og Aaron Broussard sem fór á kostum.

„Þetta eru tvö hörkulið að spila þessa íþrótt. Íþróttin er svona, áhlaup fram og tilbaka, enda menn í báðum liðum sem geta hitt úr mörgum skotum í röð. Svona verður þetta örugglega í allri seríunni, líf og fjör.“

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, sagði í viðtali við Fréttablaðið að sigurlíkur Grindvíkinga stæðu og féllu með framlagi Jóhanns Árna og Þorleifs Ólafssonar.

„Ég geri mér grein fyrir því að við Lalli þurfum að spila mjög vel eins og margir aðrir,“ sagði Jóhann Árni um ábyrgð þeirra Lalla. Þorleifur þarf þó að stilla miðið fyrir utan fyrir leikinn á föstudagskvöldið en hann hitti loks í sinni sjöttu tilraun.

Ryan Pettinella fór veikur heim eftir upphitun með ælupest. Þá fékk Sigurður Gunnar Þorsteinsson sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og góð ráð dýr hjá Grindvíkingum undir körfunni. Ekki bætti úr skák að Ómar Sævarsson féll á lyfjaprófi í vetur og má því ekki leika.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við lendum í þessari stöðu þau tvö ár sem ég hef verið í Grindavík. Við höfum alltaf verið með Ryan og Ómar á bekknum en allt í einu voru þeir horfnir á braut á einu bretti,“ sagði Jóhann Árni.

Þrátt fyrir að Stjarnan hefði betur í fráköstunum 40-34 í kvöld var stórsigur Grindavíkur niðurstaðan.

„Þetta háði okkur ekki í dag en ég vona að Ryan (Pettinella) og Siggi (Sigurður Gunnar Þorsteinsson) verði meira með í seríunni, hvorki í villuvandræðum né veikir,“ sagði Jóhann Árni.

Justin Shouse: Köstuðum frá okkur tækifæri„Það virkaði eins og við slökuðum á klónni. Í stað þess að ganga á lagið þá buðum við hættunni heim. Auðvitað eigum við að vita að bekkurinn hjá þeim myndi stíga fram. Þetta er úrslitakeppnin,“ sagði Justin Shouse leikstjórnandi Stjörnunnar.

Justin, sem skoraði 19 stig í leiknum, minnti á að aðeins einn leikur væri búinn. Stjarnan hefði hins vegar fengið gullið tækifæri í kvöld, í ljósi villuvandræða og veikinda Grindvíkinga, til að stela útisigri.

„Miðað við stöðuna og villuvandræði þeirra þá finnst mér eins og við höfum kastað frá okkur tækifæri. Hver leikur er afar mikilvægur í fimm leikja seríu,“ sagði Justin.

LeiklýsingLeik lokið | Úrslit 108-84 Stórkostlegur fjórði leikhluti hjá heimamönnum sem vinna sætan sigur. Garðbæingar þurfa að átta sig á því hvað gerðist í fjórða leikhluta fyrir næsta leik liðanna á föstudagskvöld.

38. mín | Staðan er 106-84
„Góða ferð  heim í Garðabæ,“ syngja Grindvíkingar. Teitur er búinn að kasta inn handklæðinu. Ungir leikmenn fá að spreyta sig það sem eftir lifir.

36. mín |Staðan er 96-81
Ólafur setur niður þriggja stiga skot en skot Justins og Jovan geiga. Grindvíkingar á flugi. Broussard og Jóhann Árni skora hvor sinn þristinn og þetta er svo gott sem búið. Frye fær dæmdan á sig ruðning og nú þegja stuðningsmenn gestaliðsins. Þeir vita að þetta er búið.

34. mín | Staðan er 85-72
Teitur tekur leikhlé. Justin klikkar á öðrum endanum og Jóhann Árni setur svipað skot niður hinum megin. Nú falla hlutirnir með Grindavík og stemmningin er þeim megin. Íslandsmeistararnir eru dottnir í gírinn og það er erfitt að sjá þá tapa þessu úr því sem komið er. Stjarnan á enn eftir að skora í fjórða leikhluta. Þrettán stig í röð hjá gulum.

32. mín | Staðan er 81-72
Gulir byrja betur í fjórða. Lalli setur loks þrist í sjöttu tilraun við mikinn fögnuð. Broussard bætir við tveimur af línunni. Vænt forskot hjá Grindavík. Jóhann Árni blokkar skot frá Frye og fagnar rosalega. Frye búinn að verja fjögur skot Grindvíkinga.

3. leikhluta lokið | Staðan er 74-72
Þvílíkt klúður hjá Stjörnunni. Daníel Guðmunds klúðraði þriggja stiga skoti þegar fjórar sekúndur voru eftir. Stjarnan tapaði hins vegar boltanum og Þorleifur setti flautukörfu. Munum að Zeglinski og Siggi Þorsteins eru báðir með fjórar villur hjá Grindavík. Marvin með fjórar hjá Stjörnunni.

29. mín | Staðan er 72-72
Broussard setti þrist og í næstu sókn fékk Justin Shouse heldur harkalega lendingu. Justin vill fá óíþróttamannslega villu á Lalla en fær ekki. Justin setti bæði ofan í. Lalli klikkar sínum sjötta þristi hjá Grindavík og Frye jafnar af línunni.

28. mín | Staðan er 69-68 Jarrid Frye heldur áfram að taka fráköst.  Nálgast tuginn. Jóhann Árni býður upp á þriggja stiga sókn, tvö plús víti. Frye svarar, veður í gegn og fær víti að auki. Heimamenn vilja fá ruðning en Kaninn klikkar á vítinu. Broussard setur niður tvö víti og er kominn með 24 stig, flest á vellinum. Frye svarar með troðslu. Þetta verður spennandi fram í rauðan... dauðann.

26. mín | Staðan er 60-62
Siggi Þorsteins kominn með fjórar villur. Sverrir Þór húðskammar stóra manninn. Nú vantar Grindvíkinga Pettinella til að leysa tröllið af hólmi. Davíð Ingi Bustion kemur inn á fyrir Sigga. Fimm sekúndur dæmdar á Kjartan og Grindvíkingar tryllast. Hann svarar í næstu sókn og er kominn á blað.

24. mín | Staðan er 58-54
Fannar fiskar ruðning á Zeglinski í annað skiptið í leiknum. Zeglinski kominn með fjórar villur og er á leið útaf aftur. Nú fær Fannar dæmt á sig sóknarbrot við mikla kátínu þeirra gulu í stúkunni. Nú fær Marvin sýna fjórðu fyrir litlar sakir að mati Stjörnumanna.

22. mín | Staðan er 56-52
Broussard setur niður þrist eftir að Stjörnumenn vildu fá þrjár sekúndur á Sigga Þorsteins. Justin svarar með flottu gegnumbroti. En viti menn. Stóri maðurinn frá Ísafirði bætir við þremur í næstu sókn og Grindavík komið með frumkvæðið á ný.

Umræða í hálfleik
Grindavík leiddi mest með ellefu stigum en Stjörnumenn komu tilbaka og leiða nú með tveimur. Aaron Broussard er með mest framlag hjá heimamönnum en Jarrid Frye hjá gestunum. Jovan Zdravevski kastaði víst upp á leið sinni til búningsherbergja og Pettinella er ekki lengur sýnilegur. Mögulega farinn heim eða inni í klefa.

Umræða í hálfleik
Ryan Pettinella gengur ekki heill til skógar í dag. Er fárveikur Bandaríkjamaðurinn og ekkert komið við sögu. Þeir gulu sakna hans undir körfunni. Það munar um hvern mann í þessu einvígi.

Hálfleikur | Staðan er 46-48
Þorleifur Ólafsson reyndi tvö þriggja stiga skot í sömu sókninni. Bæði víðsfjarri og það síðara snerti ekki einu sinni hringinn. Stjarnan kom bakdyramegin að Grindvíkingum því Jovan setti rándýran þrist í lokasókninni. Lalli tók sitt þriðja þriggja stiga skot á mínútu þegar tíminn rann út en átti ekki árangur sem erfiði.

18. mín | Staðan er 44-42
Brian Mills er nokkuð óvænt stigahæstur hjá gestunum komin með tólf stig. Stjarnan á helling inni hjá Justin og Frye. Jóhann Árni heldur áfram að þjarma að Stjörnumönnum. Zeglinski fer nú útaf. Hefur spilað vel en kominn með þrjár villur. Engin áhætta tekin. Tveggja stiga munur. Sá minnsti í langan tíma.

16. mín | Staðan er 38-33
Mils með þrist og nú er þetta orðið spennandi. Stjörnumenn eru samt engan veginn sannfærandi í sókninni. Hvað er að frétta? Þvílíkt klúður á báðum endum en Jarrid Frye bindur enda á vitleysuna með þristi. Áður höfðu bæði lið tapað boltanum klaufalega og Zeglinski klikkað sniðskoti einn í hraðaupphlaupi. Dramatíkin og lætin. Hér er gaman.

14. mín | Staðan er 36-28
Siggi Þorsteins með aðra troðslu sína eftir frábæra sendingu frá Þorleifi. Í næstu sókn er það Broussard sem finnur Sigga sem leggur hann ofan í. Fær vítaskot að auki sem hann klárar. Jarrid Frye minnkar muninn með þrist. Ekkert nema net.

12. mín | Staðan er 29-22
Jóhann Árni með sinn þriðja þrist úr fimm tilraunum. Kjartan Atli búinn með sína mínútu og Brian Mills og Marvin koma inn á. Loksins kemst Jovan á blað hjá gestunum. Nú setur Broussard bæði skotin sín af vítalínunni ofan í. Klikkaði báðum áðan.

1. leikhluta lokið | Staðan er 26-18 Eftir óskabyrjun gestanna sem komust í 7-0 hafa þeir gulklæddu farið á kostum. Broussard hefur verið frábær, kominn með 11 stig og 4 fráköst, og Grindvíkingar hafa verið að hirða hvert sóknarfrákastið á fætur öðru. Justin og Frye með sjö stig samanlagt hjá Stjörnunni. Bláir þurfa meira frá þeim. Hafa ekki verið að opna nógu vel fyrir félaga sína heldur.

8. mín | Staðan er 22-11
Grindvíkingar með tvö sóknarfráköst í sömu sókninni. Svo setur Jóhann Árni þrist. „Ég elsk'ann Jóhann, árans kjóann,“ syngja heimamenn.

6. mín | Staðan er 17-9.
Teitur tekur leikhlé. Grindvíkingar skorað 17 stig gegn tveimur hjá Stjörnunni. Bláir þurfa að taka til hjá sér. Justin hittir ekki fyrir utan en Marvin nær frákastinu. Mörg sóknarfráköst þessar fyrstu mínútur.

5. mín | Staðan er 17-9
Broussard með tvo þrista í röð. Heimamenn að taka yfir. Nú þurfa Stjörnumenn framlag frá Frye. Hann klikkar í sniðskoti og Lalli skorar tvö fyrir Grindavík. Átta stig í röð hjá Grindavík. Sverrir Þór kvartar yfir leikaraskap hjá Justin Shouse. Það er allt reynt. Dómararnir láta eins og þeir heyri ekki í Sverri.

4. mín | Staðan er 12-9
Mikil læti í húsinu. Sverrir Þór og Teitur láta vel í sér heyra á hliðarlínunni og kvarta yfir dómgæslu. Frye blokkar Broussard eftir frábær tilþrif þess síðarnefnda. Þá býður Ísafjarðartröllið Siggi Þorsteins upp á troðslu. Heimamenn yfir í fyrsta sinn.



2. mín | Staðan er 3-7 Justin Shouse kemur Stjörnunni yfir í fyrstu sókn með sniðskoti. Marvin bætir við tveimur af vítalínunni. Dæmdar þrjár sekúndur á Sigga Þorsteins í kjölfarið. Fín byrjun gestanna. Justin setur þrist en Jóhann Árni svarar í sömu mynt.

Fyrir leik Broussard, Jóhann Árni, Zeglinski, Þorleifur og Siggi Þorsteins byrja hjá Grindavík. Justin Shouse, Jarrid Frye, Brian Mills, Marvin og Fannar hjá Stjörnunni.

Fyrir leik Stjörnumenn unnu sigur á Grindvíkingum í bikarúrslitaleik liðanna í febrúar. Grindvíkingar eru hins vegar ríkjandi Íslandsmeistarar og slógu Stjörnuna út á leið sinni í úrslitin í fyrra. Það er engin leið að spá fyrir hvernig einvígið mun fara.

Fyrir leik Dómaratríóið í kvöld er skipað þeim Kristni Óskarssyni, Sigmundi Má Herbertssyni og Rögnvaldi Hreiðarssyni. Rándýrt tríó enda risaleikur.

Fyrir leik Þá hafa ljósin verið kvekkt, stuðningsmenn beggja liða láta vel í sér heyra og svei mér þá. Ég er orðinn spenntur eins og ALLIR, já allir.

Fyrir leik Stjörnumenn voru kynntir til leiks og svo þurftum við íþróttafréttamenn að færa okkur. Stór borði var dreginn niður og peppmyndband sýnt. Þakið ætlaði af húsinu. Ljósin eru enn slökk og nú eru Grindvíkingar kynntir til leiks. Hér er fjör!

Fyrir leik Grindvíkingar hvetja nú menn sína í upphitun og breiða út risastóran fána með merki félagsins. Nú virðist hvert sæti í stúkunni góðum manni skipað. Það er þó alltaf hægt að þjappa og verður gert næstu mínúturnar. Öðruvísi komast 800-1000 manns ekki í Röstina eins og Grindvíkingar segja húsið taka.

Fyrir leik Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, spáði í einvígið í Fréttablaðinu í morgun. Hann telur að Jóhann Árni Ólafsson og Þorleifur Ólafsson verði að ná fram sínu besta í sínum leik til að Grindvíkingum gangi vel. Þá segir Ingi Þór Justin Shouse og Jarrid Frye algjöra lykilmenn í liði Stjörnunnar. „Lykillinn að velgengni Garðbæinga,“ sagði Ingi. Viðtalið við Inga Þór má lesa hér.

Fyrir leik Leikur kvöldsins er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Arnar Björnsson og Svali Björgvinsson lýsa. Þeir sem eiga kost á því að fylgjast með útsendingunni ættu að kveikja og fylgjast með í háskerpu.

Fyrir leik
Bræðurnir Dagur Kár og Daði Lár Jónssynir eru báðir í leikmannahópi Stjörnunnar í dag. Þetta er í annað skiptið í úrslitakeppninni sem Daði er í hópnum með bróður sínum en faðir þeirra er körfuboltagoðsögnin Jón Kr. Gíslason. Sá yngsti, Dúi Þór, er líka efnilegur í körfubolta eins og sjá má hér.

Fyrir leik Gaman að sjá að tíu mánaða sonur Aaron Broussard er mættur í stúkuna ásamt mömmu sinni. Sá stutti klæðist treyju númer níu og alveg á hreinu með hverjum hann heldur.

Fyrir leik
Spilun á stemmningslaginu Cotton eyed Joe var að ljúka. Nú hljóma Paparnir. Stúkan er hálffull þótt enn sé rúmur hálftími í leik. Gulklæddir eru fjölmennari í stúkunni en sem komið er. Það er klárt mál að Röstin verður pakkfull í kvöld.

Fyrir leik
Velkomin í Röstina í Grindavík lesendur góðir. Framundan leikur gulklæddra Grindvíkinga og bláklæddra Stjörnumanna. Leikmenn beggja liða eru í upphitun úti á gólfi og spenna í loftinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×