Innlent

Guðmundur Franklín ekki kjörgengur - hættir sem oddviti í Suðvesturkjördæmi

Guðmundur Franklín Jónsson.
Guðmundur Franklín Jónsson.
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, og oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi, er ekki á kjörskrá og því ekki kjörgengur. „Það lítur út fyrir að við verðum að finna nýjan oddvita í kraganum," sagði Guðmundur Franklín þegar Vísir hafði samband við hann en þá var hann nýbúinn að frétta að hann væri ekki kjörgengur hér á landi.

Ástæðan er sú að hann er með lögheimili í Tékklandi, en til þess að vera kjörgengur hér á landi þarftu að hafa skráð lögheimili á Íslandi í ákveðnu sveitarfélagi fyrir þann 23. mars síðastliðinn.

„Ég sótti um að fá að kjósa fyrir stjórnlagaráðskosningarnar, en ég vissi bara ekki að sá réttur gilti aðeins í tvö ár," útskýrir Guðmundur en réttur hans til þess að kjósa hér á landi rann út í nóvember árið 2012.

Hann segist ekki búinn að kanna hvort hann gæti kosið utankjörfundar. „Núna set ég bara lögfræðinginn minn í málið og þetta gæti orðið lausnin, að kjósa utankjörfundar," sagði Guðmundur Franklín.

Spurður hvort hann ætli að halda áfram sem formaður flokksins, svarar Guðmundur játandi. „Ég geng ekki með neinn þingmann í maganum. Nú berst ég fyrir heimilin og við reynum að finna oddvita í suðvesturkjördæmi hið fyrsta," segir Guðmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×