Enski boltinn

Gylfi: Við getum spjarað okkur án Gareth Bale

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tottenham varð fyrir miklu áfalli í gær þegar Gareth Bale meiddist illa á ökkla í 2-2 jafntefli á móti svissneska liðinu Basel í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Tottenham jafntefli með glæsilegu marki og hann var í viðtali á heimasíðu ITV. Gylfi var spurður út í það að missa Gareth Bale sem hefur þegar skorað 22 mörk á tímabilinu.

„Það er mikill missir ef Gareth getur ekki verið með okkur í næstu leikjum en það bíða samt hungraðir leikmenn á bekknum sem eru staðráðnir í að standa sig vel. Þegar einhver leikmaður meiðist þá verða liðsfélagarnir að fylla í skarðið. Við getum spjarað okkur án Gareth Bale," sagði Gylfi.

„Það verður ekki auðvelt að spila án Gareth enda er hann búinn að spila frábærlega á tímabilinu en það verður bara einhver að koma sterkur inn í staðinn," sagði Gylfi ennfremur.

Gylfi hefur spilað vel eftir áramót og er búinn að vinna sér sæti í byrjunarliði Tottenham eftir langa dvöl á bekknum.

„Ég tel að ég sé farinn að spila minn besta bolta þótt að ég sé ekki að spila mína uppáhaldsstöðu. Ég er að spila á kantinum en meðan ég er að spila þá er ég ánægður," sagði Gylfi.

„Það hjálpar mikið að ná að spila nokkra leiki í röð því þá kemstu í takt og sjálfstraustið eykst," sagði Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×