Körfubolti

Myndi frekar kaupa aukamiða í lottóinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jay Threatt í leiknum í gær.
Jay Threatt í leiknum í gær. Mynd/Vilhelm
Jay Threatt, leikmaður Snæfells, meiddist undir lok leiks síns liðs gegn Stjörnunni í Ásgarði í gær og missir af næsta leik í undanúrslitarimmu liðanna.

Stjarnan jafnaði metin í rimmunni og er staðan nú 1-1. Næsti leikur fer fram á mánudagskvöldið í Stykkishólmi og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Hann er óbrotinn og það eru góðu fréttirnar. Hins vegar fór hann úr lið á stóru tá á hægri fæti og við það sködduðust bæði liðband og liðurinn," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, í samtali við Vísi í dag.

„Hann er mjög harður af sér en menn geta verið allt að 2-3 vikur að jafna sig af svona meiðslum. Það er alla vega afar ólíklegt að hann spili á mánudaginn - ég myndi frekar kaupa mér aukamiða í lottóinu en að veðja á það."

Ingi Þór segir enn of snemmt að segja til um hvort að Threatt muni einnig missa af fjórða leiknum í rimmunni í Garðabænum á föstudagskvöldið. Þá mun mögulega ráðast hvort liðið fari áfram í lokaúrslitin.

Snæfell getur ekki fengið nýjan Bandaríkjamann til liðs við sig nú þar sem félagaskiptaglugginn er lokaður.

Threatt hefur spilað alls 27 deildarleiki á tímabilinu og skorað að meðaltali nítján stig í leik, gefið 9,1 stoðsendingu og tekið 5,4 fráköst. Hann er bæði stiga- og stoðsendingahæstur í liði Snæfells í vetur.


Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Snæfell 90-86

Stjarnan jafnaði undanúrslitaeinvígið á móti Snæfelli með því að vinna fjögurra stiga sigur á Snæfelli, 90-86, í öðrum leik liðanna í baráttunni um sæti í úrslitaeinvígi Dominos-deildar karla í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×