Fótbolti

Bierhoff: Nánast vonlaust fyrir Þýskaland að vinna HM 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller og Mesut Özil.
Thomas Müller og Mesut Özil. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Oliver Bierhoff, fyrrum liðsmaður og liðsstjóri þýska landsliðsins í knattspyrnu, er ekki bjartsýnn fyrir hönd þýska landsliðsins á HM í Brasilíu næsta sumar. Ástæðan er ekki geta liðsins heldur það að keppnin fer fram í Suður-Ameríku.

Heimsmeistarakeppnin hefur hingað til farið fjórum sinnum fram í Suður-Ameríku (1930, 1950, 1962 og 1978) og í öll skiptin hefur Suður-Ameríkuþjóð fagnað sigri. Suður-Ameríkuþjóðir hafa einnig unnið þær þrjár keppnir sem fóru fram í Norður- og eða Mið-Ameríku.

„Það er nánast vonlaust fyrir Þýskaland að vinna HM 2014. Þetta er hátt fjall fyrir okkur að klífa því Suður-Ameríkuþjóðirnar njóta sín í sinni heimaálfu," sagði Oliver Bierhoff á blaðamannafundi í tengslum við leik Þýskalands og Kasakstan í undankeppni HM.

„Við erum ekki farnir að skipuleggja hvar við munum hafa aðsetur í Brasilíu því við vitum ekki í hvaða riðli við verðum. Við verðum samt annaðhvort mjög norðarlega eða mjög sunnarlega," sagði Bierhoff.

Þýskaland er með örugga forystu í sínum riðli og það lítur allt út fyrir að Þjóðverjar geti farið að undirbúa för sína til Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×