Fótbolti

Höness: Van Gaal heldur að hann sé pabbi guðs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal.
Louis van Gaal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Uli Höness, forseti þýska félagsins Bayern München, hikaði ekki við að láta Louis van Gaal, fyrrum þjálfara liðsins, heyra það í viðtali við hollenska blaðið De Telegraaf. Það var svar Höness við því að Van Gaal montaði sig af því á dögunum að hann hefði lagt grunninn að góðu liði Bayern í dag með starfi sínu frá 2009 til 2011.

„Það er bara Louis van Gaal sem gæti látið hafa svona eftir sér. Vandamál Louis van Gaal er ekki að hann haldi það að hann sé guð heldur frekar það að hann telur sig vera pabba guðs. Louis van Gaal var hérna á jörðinni áður en hún varð til," sagði Uli Höness í kaldhæðni.

„Ef þú horfir á heiminn frá sjónarhóli Louis van Gaal þá er erfitt að sjá hvernig hlutirnir eru í raun og veru," sagði Höness.

„Van Gaal er samt góður þjálfari og hann hreinsaði upp skítinn eftir Jurgen Klinsmann. Það er hans þáttur í uppkomu Bayern. Svo langt nær hans þátttaka í árangri liðsins í dag og hann átti meira að segja engan þátt í því að Guardiola var ráðinn," sagði Höness.

Bayern vann bæði deild og bikar undir stjórn Louis van Gaal tímabilið 2009-10 og komst þá einnig í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem liðið tapaði fyrir Internazionale.

Liðið á möguleika á því að vinna þrennuna á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×