Sport

Gunnar, þjálfari Anítu: Þetta var mjög flott hjá henni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir keppir fyrir ÍR.
Aníta Hinriksdóttir keppir fyrir ÍR. Mynd/Vilhelm
Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur, var ánægður með hlaupið hennar í kvöld þegar hún tryggði sér sæti í undanúrslitahlaupinu í 800 metra hlaupi kvenna á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð.

„Það var mjög flott hjá henni að komast í undanúrslitin því þetta var ofboðslega jafnt og enginn slakur. Það var helmingslíkur á því að hún kæmist áfram og ég er því mjög sáttur við það," sagði Gunnar Páll.

Aníta leiddi hlaupið fyrsti 500 metrana en gaf aðeins eftir á lokasprettinum.

„Hún keyrir af stað en hún sagðist hafa fundið það eftir 400 metrana að þetta væri alltof hratt og sagðist þá hafa slakað viljandi á," segir Gunnar Páll.

„Hún vissi að það væri þrjár öruggar áfram og hún var alveg viðbúin því ef að það kæmu fleiri en tvær að henni. Þá hefði hún bætt í," sagði Gunnar Páll en Aníta var með níunda besta tímann í undanrásunum.

„Hún sér eftir þetta hlaup og ég líka að hún getur hlaupið hraðar á morgun ef hún nær að útfæra hlaupið öðruvísi," sagði Gunnar Páll en Aníta var langyngst í hlaupinu og að keppa á sínu fyrsta stórmóti fullorðinna.

Undanúrslitahlaupið hjá Anítu fer fram á morgun klukkan 16:38 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Aníta komst áfram í undanúrslitin

ÍR-ingurinn Aníta Hinriksdóttir tryggði sér sæti í undanúrslitum í 800 metra hlaupi kvenna á Evrópumeistaramótinu innanhúss í frjálsum íþróttum sem fram fer um helgina í Gautaborg í Svíþjóð. Undanúrslitin fara fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×