Körfubolti

Fjórir af fimm leikjum kvöldsins í beinni á netinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Kár Jónsson og félagar í Stjörnunni mæta í Vesturbæinn í kvöld.
Dagur Kár Jónsson og félagar í Stjörnunni mæta í Vesturbæinn í kvöld. Mynd/Vilhelm
Fimm leikir fara fram í kvöld í 20. umferð Domnios-deildar karla í körfubolta en eftir þessa umferð eru eiga liðin aðeins tvo leiki eftir.

Það verður hægt að fylgjast með fjórum af fimm leikjum kvöldsins í beinni útsendingu á netinu því Sport-TV, Tindastóll-TV, KFÍ-TV og KR-TV sýna leiki í kvöld. Þetta kemur fram á heimasíðu KKÍ.

Það er bara Vesturlandsslagurinn milli Skallagríms og Snæfells sem verður ekki í beinni en það má búast við troðfullu Fjósi í kvöld.

Sport-TV sýnir stórleik Keflavíkur og Þórs úr Þorlákshöfn. Þórsliðið er í 2. sæti fjórum stigum á undan Keflavík en hefur misst tvo lykilmenn í meiðsli. Keflavík hefur tapað tveimur síðustu leikjum sínum en á enn möguleika á að krækja í heimavallarrétt í úrslitakeppninni.

KR-ingar taka á móti bikarmeisturum Stjörnunnar í DHL-höllinni en Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari kvennaliðsins, mun stýra karlaliðinu í fyrsta sinn í kvöld.

Tindastóll (á móti Njarðvík) og KFÍ (á móti Grindavík) eiga bæði erfiða leiki en eru á heimavelli og þurfa helst sigur til þess að eiga möguleika á því að komast í úrslitakeppnina.

Leikir kvöldsins: (Hefjast allir klukkan 19.15)

Keflavík - Þór Þ., Toyota höllin í Keflavík

Tindastóll - Njarðvík, Síkið á Sauðárkróki

KFÍ - Grindavík, Jakinn á Ísafirði

KR - Stjarnan, DHL-höllin í Frostaskjóli

Skallagrímur - Snæfell, Fjósið í Borgarnesi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×