Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Þór 106-100

Jón Júlíus Karlsson í Sláturhúsinu skrifar
Keflavík vann góðan heimasigur á Þór Þorlákshöfn í Dominos-deild karla í kvöld, 106-100. Keflavík leiddi lungan úr leiknum og með fínum sóknarleik náði liðið að innbyrða fínan sigur.

Það var ekki mikið um góðar varnir í fyrsta leikhluta í Toyota-höllinni í kvöld og þrátt fyrir að um mikilvægan leik væri að ræða var hálfgerð ládeyða yfir báðum liðum. Keflavíkingar höfðu frumkvæðið framan af fyrsta leikhluta en Þór náði að jafna metin, 23-23, áður en fyrsti leikhluti var úti.

Michael Craion lék vel hjá Keflavík í öðrum leikhluta og var kominn með 17 stig áður en blásið var til hálfleiks. Það er helst honum að þakka að Keflavík leiddi í hálfleik. Þór byrjaði leikhlutann betur en Keflvíkingar tóku fína rispu um miðjan leikhlutann og náði aftur forystunni. Benjamin Curtis Smith setti niður frábæran þrist á sama tíma og leiktíminn rann út og minnkaði muninn fyrir Þór. Staðan í hálfleik, 53-50. Curtis Smith og David Jackson voru atkvæðamestir hjá Þór í fyrri hálfleik með 14 stig hvor.

Keflvíkingar höfðu alltaf frumkvæðið í þriðja leikhluta. Craion og Magnús Þór Gunnarsson voru að leika vel og með góðum sóknarleik náði liðið að fjarlægjast gestina úr Þorlákshöfn. Billy Baptist átti góðan sprett í lok þriðja leikhluta. Fyrst setti hann niður fínan þrist og tróð svo með tilþrifum þegar nokkrar sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta. Keflavík leiddi með tíu stigum að þriðja leikhluta loknum, 79-69 sem var mesti munurinn á liðunum í leiknum fram að þessu.

Keflavík lét kné fylgja kviði í lokaleikhlutanum. Liðið náði fljót mjög fínni forystu sem þeir létu ekki af hendi þrátt fyrir ágæta rispu hjá Þór undir lok leikins. Ekki hjálpaði til fyrir Þór að Guðmundur Jónsson fór af velli með fimm villur þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum og kom hann ekkert meira við sögu. Heimamenn voru kannski full kærulausir undir lok leiksins og misstu forystuna niður í sex stig þegar 18 sekúndur voru eftir en gestirnir náðu ekki að nýta tækifærið og því hirti Keflavík stigin tvö.

Magnús: Hefðum mátt vinna stærra

„Þó að þeir hafi minnkað muninn niður í sex stig þá var þetta ekki í hættu. Við vorum kannski að flýta okkur of mikið undir restina – þá sérstaklega ég. Við unnum og það er það sem við ætluðum okkur að gera," sagði Magnús Gunnarsson, fyrirliði Keflavíkur.

„Þetta er ágætur sigur. Við hefðum mátt vinna þetta stærra. Það vantar í liðið hjá Þór. Þrátt fyrir það eru þeir með hörkulið og ég er mjög sáttur með sigurinn."

„Við verðum að vona að Snæfell og Þór tapi leikjum svo að við náum kannski öðru eða þriðja sætinu í deildinni. Það skiptir auðvitað máli að fá heimaleikjarétt en það er þó ekki eins mikilvægt og margir vilja meina. Við erum líklega að fara að mæta Stjörnunni eða Þór en auðvitað væri betra að eiga fleiri heimaleiki á móti þessum liðum," segir Magnús sem telur að liðið þurfi að leika betur.

„Við vorum búnir að tapa tveimur leikjum í röð fyrir þennan leik. Við lékum mun betur í kvöld en í tveimur síðustu leikjum og vonandi heldur það áfram."



Benedikt: Mjög ósáttur með varnarleikinn

„Ég man ekki eftir því að hafa verið sáttur eftir tapleik og það breytist ekki í kvöld. Ég er mjög ósáttur með varnarleikinn hjá liðinu. Við vorum að fá á okkur alltof mörg stig," sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar eftir tap sinna manna í kvöld.

„Liðið saknaði Baldurs og Darra í kvöld. Við erum með leikmenn sem geta tekið við keflinu í sókninni en menn þurfa að stíga upp í vörninni og það er okkar helsta vandamál núna."

„Það blundar auðvitað í mönnum að ná toppsætinu í deildinni. Það er hins vegar þannig að deildarmeistarar eru ekki krýndir Íslandsmeistarar þannig að sá titill er meira auka og gaman ef það tekst en ekki aðalmálið fyrir okkur," segir Benedikt. Hann vonast til að laga varnarleik liðsins fyrir úrslitakeppnina.

„Við þurfum að fá meira varnarviðhorf í liðið. Körfubolti snýst ekki bara um að skora og líta vel út í sókninni. Það þarf að stoppa manninn sinn og það er eitthvað sem við verðum að gera. Þorsteinn (Ragnarsson) átti fína innkomu í kvöld en átti erfitt með að dekka Magnús (Þór Gunnarsson). Það er erfitt að dekka Magga - eitthvað sem Darra hefur gengið mjög vel með eftir að hann kom í Þór. Það eru þessi varnaratriði sem voru ekki til staðar í kvöld."

Keflavík-Þór Þ. 106-100 (23-23, 30-27, 26-19, 27-31)


Keflavík: Michael Craion 29/15 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 27, Darrel Keith Lewis 18/6 fráköst/6 stoðsendingar, Billy Baptist 16/8 fráköst, Valur Orri Valsson 7, Arnar Freyr Jónsson 5, Snorri Hrafnkelsson 4.

Þór Þ.: Benjamin Curtis Smith 30/8 stoðsendingar, David Bernard Jackson 26/13 fráköst, Vilhjálmur Atli Björnsson 16/3 varin skot, Guðmundur Jónsson 14/4 fráköst, Darrell Flake 14/4 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 0/7 fráköst.

Bein textalýsing:

40. min:
Leik lokið 106-100 fyrir Keflavík.

39. min:
Þórsarar klikka á þriggja stiga skoti þegar 10 sekúndur eru eftir og brjóta svo á Craion hjá Keflavík. Keflavík er að klára þetta.

39. min:
Þór tekur leikhlé þegar það eru 18 sekúndur eftir. Staðan er 104-98.

39. min:
Keflavík skorar fjögur stig í röð og nær 9 stiga forystu. 01:22 á klukkunni. Staðan er 103-94

38. min:
Þór er búið að minnka muninn niður í níu stig, 99-90 þegar tvær og hálf mínúta er eftir.

37. min:
David Jackson minnir á sig í liði Þórs og treður skemmtilega. Staðan er 99-83.

36. min:
Dæmd er tæknivilla á Guðmund Jónsson í Þór vegna mótmæla. Hann er þar með kominn með fimm villur og tekur ekki meira þátt í leiknum.

35. min:
Guðmundur Jónsson heldur Þór inni í leiknum með þrist. Staðan er 90-75. Þegar 05:32 eru á klukkunni.

34. min:
Michael Craion, Keflavík, tróð svakalega yfir varnarmann Þórs. Sem betur fer fyrir Þórsara þá var búið að dæma ruðning. Staðan er 88-72.

32. min:
Keflavík er að koma sér í vænlega stöðu. Staðan er 87-72. Það verður erfitt fyrir Þór að koma tilbaka úr þessari stöðu.

30. min:
Staðan eftir þriðja leikhluta, 79-69 fyrir Keflavík. Mesti munurinn í leiknum til þessa.

30. min:
Baptist kveikir í sínum mönnum með troðslu þegar skammt er eftir af þriðja leikhluta.

30. min:
Billy Baptist laumar niður góðum þrist við góðar undirtektir heimamanna. Staðan er 77-69.

29. min:
Benedikt Guðmundsson er ósáttur með spilamennskuna hjá sínum mönnum og tekur leikhlé. Staðan er 72-65.

27. min:
Njarðvíkingurinn í liði Þórs, Guðmundur Jónsson, sendi niður þrist. Magnús Gunnarsson svaraði um hæl fyrir Keflavík. Staðan 68-64.

25. min:
Leikurinn er í járnum. Hvorugt liðið virðist ætla að taka af skarið. Staðan er 63-57 fyrir Keflavík.

22. min:
Þorsteinn Ragnarsson kemur Þór yfir með góðum þrist, staðan er 53-55.

21. min:
Þriðji leikhluti er farinn af stað. Þór skorar fyrstu körfu seinni hálfleiks, staðan 53-52.

20. min:
Benjamin Curtis Smith skorar flautuþrist fyrir Þór. Glæsileg karfa. Staðan í hálfleik, 53-50.

20. min:
Þorsteinn Ragnarsson svarar fyrir Þór með þrist - sjaldið'niður. Staðan er 51-47.

20. min:
Magnús Gunnarsson minnir á sig með góðum þrist eftir hraða sókn. Staðan er 51-44 fyrir Keflavík.

19. min:
Keflvíkingar eru að ná undirtökunum í leiknum. Staðan er 47-42.

16. min:
Þór tekur lékhlé í stöðunni 39-38 fyrir Keflavík. Góður kafli hjá Keflavík síðustu mínútur. Sóknarleikurinn hjá Þór hefur ekki verið að skila tilætluðum árangri í síðustu sóknum.

14. min:
Keflavíkingar koma tilbaka með fimm stigum í röð. Staðan 34-36.

13. min:
Góður kafli hjá Þór þar sem komast í sjö stiga forystu, 29-36.

10. min:
Létt skemmtun var í hlénu þar sem tveir áhorfendur tóku skot fyrir utan þriggja stiga línuna. Stuðningsmaður Keflavíkur gerði sér lítið fyrir og skoraði, með "ömmuskoti".

10. min:
Fyrsta leikhluta er lokið. Staðan er jöfn 23-23.

9. min:
Hlúð er að Billy Baptist, Keflavík, vegna meiðsla í baki á hliðarlínunni. Hann fær þessa líka fínu þjónustu hjá sjúkraþjálfara Keflavíkur sem nuddar hann hátt og lágt.

9. min:
Keflvíkingar eru ekki sáttir og taka leikhlé. Staðan er 18-20.

8. min:
Staðan er 18-18 þegar það eru tvær mínútur eftir af fyrsta leikhluta.

5. min:
Leikurinn er jafn á fyrstu mínútum leiksins. Staðan er 14-10.

3. min:
Þorsteinn Ragnarsson byrjar vel hjá Þór í kvöld og hefur skorað fjögur af sex stigum Þórs. Staðan er 10-6.

2. min:
Keflavík byrjar leikinn betur, staðan er 7-4.

1. min:
Leikurinn er hafinn - Keflavík vinnur uppkastið og skorar fyrstu stig leiksins. 2-0.

0. min:
Keflavík er með 24 stig í fimmta sæti og þarf nauðsynlega á sigri að halda til að eiga möguleika á heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

0. min:
Þór getur með sigri í kvöld náð efsta sætinu í deildinni og jafnað við Grindavík með 30 stig. Leik Grindavíkur og KFÍ hefur verið frestað og því er kjörið tækifæri fyrir Þór í kvöld.

0. min:
Það eru tæpar 10 mínútur í leik og áhorfendur eru farnir að streyma í Toyota-höllina í Reykjanesbæ þar sem leikurinn fer fram.



0. min: Komið þið sæl. Það styttist í leik Keflavíkur og Þórs Þorlákshafnar í Dominos-deild karla í körfuknattleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×