Körfubolti

Keflvíkingar geta náð lengstu sigurgöngu vetrarins í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrel Keith Lewis hefur skorað 20,3 stig að meðaltali í leik fyrir Keflavík eftir áramót.
Darrel Keith Lewis hefur skorað 20,3 stig að meðaltali í leik fyrir Keflavík eftir áramót. Mynd/Daníel
Keflvíkingar eiga möguleika á því að vinna sinn sjöunda leik í röð í Domnios-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir fá Tindastól í heimsókn í Toyota-höllina í Keflavík.

Keflavík er eitt þriggja liða sem hefur náð að vinna sex deildarleiki í röð á þessu tímabili. Keflvíkingar hafa ekki tapað deildarleik síðan að þeir töpuðu á móti Njarðvík á heimavelli í síðasta leik sínum fyrir áramót.

Þór úr Þorlákshöfn var fyrsta liðið til þess að ná því að vinna sex deildarleiki í röð á leiktíðinni en þeir unnu sinn sjötta sigurleik í röð á móti Snæfelli í Hólminum 13. desember. Sigurganga Þórs endaði með 72-76 tapi á móti Skallagrími á heimavelli í fyrsta leik ársins 2013.

Grindvíkingar unnu sinn sjötta leik í röð þegar þeir unnu Tindastóll 4. janúar síðastliðinn. Sigurganga Grindavíkur endaði með 98-106 tapi á móti Keflavík á heimavelli 10. janúar síðastliðinn. Grindvíkingar hafa síðan unnið fimm leiki í röð og eru því með 11 sigra í síðustu 12 leikjum.

Keflavík hefur unnið þessa sex leiki á móti eftirfarandi liðum: ÍR (111-84), Grindavík (106-98), Stjörnunni (107-103), KR (100-85), KFÍ (111-102) og Fjölni (113-101).

Tveir leikir fara fram í kvöld því Þór Þorlákshöfn tekur á sama tíma á móti KFÍ á heimavelli sínum í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×