Enski boltinn

Terry: Chelsea mun gera allt til þess að vinna Evrópudeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, vonast til þess að liðið geti bjargað tímabilinu með því að vinna Evrópudeildina. Chelsea vann Meistaradeildina í fyrra en komst ekki upp úr riðlinum í ár.

Chelsea er enn með í enska bikarnum sem liðið vann á síðustu leiktíð en mætir síðan Sparta Prag í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

„Við erum núna í Evrópudeildinni og það er bara eitt markmið í gangi og það er að fara og vinna hana. Það er ekkert flóknara. Chelsea mun gera allt til þess að vinna Evrópudeildina," sagði John Terry í viðtali við Evening Standard.

„Við verðum að að passa upp á að við séum rétt gíraðir í Evrópuvikunni því nú þurfum við að venjast því að spila okkar leiki á fimmtudögum og sunnudögum. Það er breyting fyrir okkur," sagði Terry en Meistaradeildin er spiluð á þriðju- og miðvikudögum.

„Það hefur ekki gengið nógu vel á þessu tímabili því við ættum að vera að berjast um meistaratitilinn en ekki um 3. og 4. sæti eins og staðan er núna. Það eru samt margir leikir eftir á leiktíðinni og við þurfum að reyna að vinna einhverja titla," sagði Terry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×