Körfubolti

Frábær fjórði leikhluti hjá Keflvíkingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrel Lewis lék vel í kvöld.
Darrel Lewis lék vel í kvöld. Mynd/Daníel
Keflvíkingar eru komnir upp í fimmta sætið í Dominosdeild karla í körfubolta eftir 15 stiga sigur á KR, 100-85, í DHL-höllinni í kvöld en liðin höfðu þar með sætaskipti í deildinni. Keflvíkingar unnu síðustu fjórar mínútur leiksins með fimmtán stigum.

Keflvíkingar voru þarna að vinna fjórða deildarsigur sinn í röð en KR-ingar hafa aftur á móti tapað tveimur fyrstu leikjum sínum með Bandaríkjamennina Darshawn McClellan og

Brandon Richardson báða innanborðs.

Darrel Lewis skoraði 30 stig fyrir Keflavík, Michael Craion var með 27 stig og 13 fráköst og Billy Baptist skoraði 21 stig og tók 14 fráköst. Darshawn McClellan var stigahæstur hjá KR með 21 stig en aðeins átta þeirra komu í þremur síðustu leikhlutunum. Brynjar Þór Björnsson var með 12 stig og 7 stoðsendingar og Finnur Atli Magnússon skoraði 12 stig.

KR-ingar byrjuðu leikinn vel með Darshawn McClellan í fararbroddi en KR var ellefu stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 28-17. McClellan skoraði 13 stig í fyrsta leikhlutanum.

Keflvíkingar náðu að minnka muninn niður í tvö stig fyrir hálfleik, 45-43 fyrir KR, með því að vinna annan leikhlutann 26-17. Darrel Lewis skoraði ellefu stig í leikhlutanum.

Leikurinn hélst jafn og spennandi í seinni hálfleiknum en KR var einu stigi yfir, 71-70, fyrir lokaleikhlutann. Keflvíkingar tóku öll völd í stöðunni 79-77 fyrir Keflavík og unnu síðustu fjórar mínútur leiksins 23-8.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×