Körfubolti

Snæfell aftur á sigurbraut í Hólminum - þriðja tap KR í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Þorvaldsson skoraði 24 stig á 23 mínútum í kvöld.
Sigurður Þorvaldsson skoraði 24 stig á 23 mínútum í kvöld. Mynd/Stefán
Snæfellingar komust aftur á sigurbraut í Fjárhúsinu í Stykkishólmi í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir unnu sex stiga sigur á KR, 110-104. Snæfell hafði tapað tveimur deildarleikjum í röð í húsinu sem og undanúrslitaleik í bikarnum. KR-ingar hafa nú þremur deildarleikjum í röð.

Sigurður Þorvaldsson (24 stig) og Jay Threatt (24 stig og 11 stoðsendingar) voru stigahæstir hjá Snæfelli. Jón Ólafur Jónsson skoraði 19 stig og Ryan Amaroso var með 17 stig og 12 fráköst á 27 mínútum í sínum fyrsta leik með Snæfelli á þessu tímabili.

KR-ingar hafa þar með tapað öllum leikjum sínum með þá Darshawn McClellan og Brandon Richardson saman en Bandaríkjamennirnir komu til KR-liðsins eftir áramót. Richardson var með 20 stig í kvöld en McClellan skoraði 12 stig þar af átta þeirra undir lok leiksins. Helgi Már Magnússon skoraði 17 stig fyrir KR en þeir Brynjar Þór Björnsson og Martin Hermannsson skoruðu báðir 16 stig.

KR byrjaði betur og var 23-4 eftir rúmlega sjö mínútna leik en Snæfell átti góðan spretti í lok leikhlutans og það munaði bara einu stigi, 24-25, eftir fyrsta leikhlutann. Snæfell vann annan leikhlutann 27-21 og var fimm stigum yfir í hálfleik, 51-46.

Snæfellingar gerðu síðan út um leikinn með því að vinna fjórar fyrstu mínútur seinni hálfleiks 20-9 og komast sextán stigum yfir, 71-55. KR-ingar náðu aðeins að laga stöðuna en ógnuðu aldrei sigri heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×