Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Þór 88-83

Guðmundur Marinó Ingvarsson í DHL-höllinni skrifar
mynd/vilhelm
KR batt enda á þriggja leikja taphrinu með góðum sigri á Þór frá Þorlákshöfn 88-83 á heimavelli sínum í kvöld í Dominos deild karla í körfubolta. KR var einu stigi yfir í hálfleik 44-43.

Þór klúðraði fimm af sex síðustu vítaskotum sínum í leiknum og segja má að það hafi farið með leikinn fyrir Þorlákshafnarliðið.

KR hélt aftur á móti haus og vann ákaflega mikilvægan sigur en KR fór upp í 18 stig með sigrinum og er nú fjórum stigum á eftir Þór en ákaflega þéttur pakki er á toppi deildarinnar.

Þór byrjaði leikinn mun betur og komst í 15-9 eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Þá tók KR leikhlé og skoraði níu stig í röð úr því og eftir það var leikurinn ákaflega jafnt og aldrei munaði meira en fimm stigum á liðunum upp frá því.

KR leiddi lengst af en Þór komst yfir fyrir fjórða leikhluta, 66-65.

KR komst aftur yfir í upphafi fjórða leikhluta en í stöðunni 72-72 þegar enn voru fimm mínútur eftir missti liðið Kristófer Acox útaf meiddan. Kristófer hafði leikið mjög vel í leiknum en KR-ingar misstu ekki dampinn og náðu að komast yfir aftur og með lélegri vítanýtingu Þórs náði KR að halda út og tryggja sér mikilvægan sigur.

KR-Þór Þ. 88-83 (23-23, 21-20, 21-23, 23-17)

KR: Brynjar Þór Björnsson 19, Helgi Már Magnússon 19, Kristófer Acox 16/6 fráköst, Darshawn McClellan 14/14 fráköst, Brandon Richardson 12/5 fráköst, Martin Hermannsson 5, Emil Þór Jóhannsson 2, Finnur Atli Magnusson 1/5 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 0/4 fráköst, Darri Freyr Atlason 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0.

Þór Þ.: Benjamin Curtis Smith 31/5 fráköst/6 stoðsendingar, Darrell Flake 25/11 fráköst/3 varin skot, David Bernard Jackson 14/9 fráköst, Guðmundur Jónsson 8, Darri Hilmarsson 5/9 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 0, Baldur Þór Ragnarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0.

Leik lokið88-83: KR vinnur sanngjarnan sigur.

40. mínúta 86-82: Þór nær ekki opnu skoti og KR á leið á vítalínuna. Finnur Atli.

40. mínúta 86-82: McClellan á vítalínunni. Öruggur.

40. mínúta 84-80: Brynjar hittir, dæmt, telur ekki. KR tapar í kjölfarið boltanum en fær hann aftur þegar Guðmundur hittir bara loft í þrist í næstu sókn Þórs.

39. mínúta 84-80: Fjögur víti forgörðum hjá Þór í röð. Það er dýrt.

39. mínúta 84-80: McClellan að stíga upp hjá KR með þrist. Og ég sem hélt að hann borgaði með sér hjá KR.

38. mínúta 79-80: Þristur langt utaf af velli. Jackson getur þetta eins og Flake og Smith.

37. mínúta 79-75: Sóknarfrákst og Brynjar Þór með þrist í kjölfarið, rándýrt.

36. mínúta76-74: KR búið að ná áttum eftir áfallið að missa Kristófer útaf.

35. mínúta 72-72: Acox útaf meiddur. Ákaflega slæmt fyrir KR.

34. mínúta 72-70: KR aftur komið með frumkvæðið.

33. mínúta68-69: Varnarleikurinn að herðast, enda lítið eftir.

31. mínúta 68-66: Brynjar Þór með þrist, kveikir í húsinu.

Þriðja leikhluta lokið 65-66: Síðasta skot leikhlutans niður hjá Smith, hann kominn í 23 stig. Flake er með 20 stig. Hjá KR er Helgi Már með 15 stig og Kristófer 14.

29. mínúta63-64: Martin Hermannsson með þrist og minnkar muninn í eitt stig.

28. mínúta 58-61: Smith kominn í 21 stig.

27. mínúta 58-59: Rándýr heppnis karfa og Þór komið yfir.

26. mínúta 56-55: KR enn með frumkvæðið, rétt svo.

25. mínúta 54-54: Flake með þrist og aftur allt jafnt.

24. mínúta 52-51: Liðin skiptust á körfum og forystu. Svona má þetta alveg vera áfram. Gríðarleg spenna í leiknum.

23. mínúta 48-48: Þórsarar svo fljótir að svara.

22. mínúta48-43: KR að spila hörku vörn.

21. mínúta: 46-43: KR með fyrstu körfu seinni hálfleiks.

Hálfleikur: Sjö leikmenn skoruðu fyrir KR í fyrri hálfleik en aðeins fjórir fyrir Þór. Smith skoraði 15, Flake 14 og Guðmudnru og Jackson 7 stig hvor.

Hálfleikur: Þessi fyrri hálfleikur var algjör veisla. Brynjar, Helgi og Richardson skoruðu allir 9 stig fyrir KR og Kristófer Acox 8.

Öðrum leikhluta lokið44-43: Viðeigandi að Þór lokaði hálfleiknum með 4-0 kafla.

19. mínúta 44-39: Þá svarar KR með 4-0 sprett.

18. mínúta 40-39: Fjögur stig í röð hjá Þór.

17. mínúta 40-35: Flake minnir okkur á að hann er stórkostlegt eintak af leikmanni líka.

16. mínúta 38-33: Kristófer Acox stelur boltanum og skorar svo á hinum endanum. Gæða leikmaður.

15. mínúta36-31: KR heldur frumkvæðinu, liðið lítur vel út þessa stundina.

14. mínúta 32-29: Það er heitt í kolunum og ljóst á báðum liðum að það er mikið í húfi.

13. mínúta 30-27: KR nær að vera skrefinu á undan hér í upphafi annars leikhluta.

12. mínúta 27-27: Leiftrandi sóknarleikur hjá báðum liðum.

11. mínúta 25-23: KR skorar fyrstu körfu annars leikhluta.

Fyrsta leikhluta lokið 23-23: Martin Hermannsson með laglega flautukörfu og allt jafnt. Svona á þetta að vera og verður vonandi áfram. Bráð fjörugt og jafnt á öllum tölum eða svo gott sem.

9. mínúta 20-19: Liðin búin að finna körfuna aftur.

8. mínúta18-17: Sterkur varnarleikur í fyrirrúmi þessa stundina, eða lélegur sóknarleikur.

6. mínúta 18-15: Níu, núll sprettur hjá KR.

5. mínúta 16-15: KR svara leikhléinu á eina rétta mátan. Góð sókn og sterk vörn, í bili a.m.k.

4. mínúta 9-15: Guðmundur Jónsson með þrist og KR tekur leikhlé.

3. mínúta 7-8: Darrell Flake hefur ekkert fyrir þessu.

2. mínúta 5-2: Brynjar Þór með þrist eftir góða körfu Guðmundar Jónssonar.

1. mínúta 2-0: Kristófer Acox með fyrstu körfu leiksins, troðsla!

Fyrir leik: Þór hefur leikið tvo toppleiki í röð. Liðið tapaði með tveimur stigum fyrir Grindavík 31. janúar og sigraði Stjörnuna með fimm stigum í síðasta leik sínum á föstudaginn.

Fyrir leik: KR er búið að tapa þremur leikjum í röð og þarf að vinna ætli liðið að blanda sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar.

Fyrir leik: KR er í sjötta sæti með 16 stig og Þór er í öðru sæti með 22 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Grindavíkur.

Fyrir leik: Hér mætast liðin í öðru og sjötta sæti deildarinnar.



Guðmundur Árni Ólafsson skoraði ekki fyrir Bjerringbro-Silkeborg sem tapaði 29-26 fyrir franska liðinu Chambery Savoie í Frakklandi í dag í Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Franska liðið vann þar sinn fyrsta sigur á tímabilinu í Meistaradeildinni en Bjerringbro-Silkeborg er í fjórða sæti C-riðils með 6 stig og stefnir í 16 liða úrslit.

Casper Mortensen skoraði sex mörk fyrir danska liðið og þeir Chris Jörgensen og Lauge Schmidt fimm mörk hvor.

Hjá franska liðinu var Oliver Marroux markahæstur með sex mörk líkt og Timothey Nguessan.

Helgi Már: Megum ekki við því að tapa aftur„Við héldum haus. Í síðustu leikjum  höfum við spilað vel í 30 mínútur en svo hafa komið kafla sem hafa verið hryllilegir. Þetta var alveg sveiflukenndur leikur en við förum ekki of lágt. Við náum alltaf að halda dampi og þetta var leikur allan tímann,“ sagði Helgi Már Magnússon annar spilandi þjálfara KR í leikslok.

„Kristófer var búinn að spila vel og meiddist en það eru menn á bekknum. Það er alltaf talað um að KR sé með sterkt lið og við segjum það sjálfir þannig að það á ekki að aftra okkur of mikið.

„Það var smá klúður hjá okkur í lokin að tapa boltanum tvisvar fjórum stigum yfir þegar við gátum gert út um leikinn en við tökum sigurinn fegnir.

„Við gátum tekið síðustu leiki líka en misstum þá frá okkur í tómu bulli. Við verðum að vinna heimaleikina og ef við ætlum að vera með í þessari topp baráttu þá megum við ekki við því að tapa aftur. Allir leikir eru gríðarlega mikilvægir,“ sagði Helgi Már.

Benedikt: Oftast vítin sem ráða úrslitum í jöfnum leikjum„Það er ýmislegt sem gengur upp í svona leikjum og hellingur sem gengur ekki upp en í svona jöfnum leikjum eru það oftast vítin sem ráða loka úrslitum og við kláruðum þau í síðasta leik og lokuðum leiknum þannig en náðum ekki að gera það í kvöld,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs.

„Við erum ekki með tvö fimm manna lið eins og KR þó allir væru með. Liðin í kringum okkur sem við erum að reyna að slást við hafa styrkt sig um jólin á meðan við höfum misst menn í meiðsli sem er ekki óeðlilegt. Það lenda öll lið í því og við hlökkum til að fá (Emil Einarsson og Grétar Erlendsson) aftur.

„Ég er mjög ánægður með það hvernig við höfum leikið úr þessu. Við spilum tvo leiki í þremur dögum við liðin sem er spáð eitt og tvö fyrir mót og eru svakalega sterk. Ég er brattur.

„Auðvitað verður gott að fá stóran mann í róteringuna. Við erum litlir og erum að spila á Gumma (Guðmundi Jónssyni) og Darra (Hilmarssyni) í fjarkanum sem er ekki eðlilegt til lengdar og við komumst ekki upp með það endalaust.

„Það verður gott að fá Emil og Grétar inn aftur sem eru 197 til 200 sentímetrar. Okkur veitir ekki af því. Ég veit ekki hve langt er í þá. Þessi tísku meiðsli á þessari öld, undir ilinni, eru erfið við að eiga. Það getur alltaf komið bakslag og það eina sem þú getur gert er að hvíla og nudda þetta eitthvað.

„Ég hef gaman af þessu. Deildin er frábær svona jöfn. Fyrir nokkrum árum var maður ekkert að skoða hvernig fyrri leikurinn fór og ekki að spá í innbyrðis fyrir hvern einasta leik sem þú fórst í. Það er búið að vera mikið um það núna í vetur og í fyrra líka. Svona viljum við hafa það,“ sagði Benedikt að lokum um stöðuna á toppi deildarinnar sem er öll í hnapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×