Sport

NFL: Lið Harbaugh-bræðranna mætast í Super Bowl í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn magnaði Ray Lewis er að spila sína síðustu leiki á ferlinum.
Hinn magnaði Ray Lewis er að spila sína síðustu leiki á ferlinum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Baltimore Ravens og San Francisco 49'ers tryggðu sér í nótt sæti í úrslitaleik ameríska fótboltans, Super Bowl. Flestir bjuggust við sigri 49'ers á Atlanta Falcons í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar en sigur Baltimore Ravens á New England Patriots í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar kom mörgum spekingum á óvart.

Það verður lítið rætt um annað næstu dagana þegar kemur að Super Bowl leiknum að þarna munu bræður mætast með lið sín. John Harbaugh þjálfar lið Baltimore Ravens og yngri bróðir hans Jim Harbaugh þjálfar lið San Francisco 49'ers.

Bæði lið bræðranna voru á útivelli og lentu undir í sínum leikjum en komu sterk til baka og áttu frábæra seinni hálfleiki þar sem þau héldu mótherjum sínum á núllinu.

Atlanta Falcons komst í 17-0 á heimavelli á móti San Francisco 49'ers en Niners minnkuðu muninn í 24-14 fyrir hálfleik, unnu síðan seinni hálfleikinn 14-0 og leikinn þar með 28-24.

Baltimore Ravens var 7-13 undir í hálfleik á móti New England Patriots en hann seinni hálfleikinn 21-0 og leikinn þar með 28-13.

Það bjóst enginn við að hin frábæra vörn Baltimore Ravens liðsins tækist að halda hinum frábæra Tom Brady stigalausum í heilum hálfleik en Ray Lewis og félagar unnu enn einn magnaða sigurinn í úrslitakeppni NFL-deildarinnar í ár.

Super Bowl fer fram 3. febrúar næstkomandi í New Orleans en þar getur San Francisco 49'ers unnið sinn fyrsta NFL-titil síðan 1994 og Baltimore Ravens orðið meistari í annað sinn (einnig árið 2000).

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×