Enski boltinn

Heitasta slúðrið í boltanum: Luis Suárez til Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suárez.
Luis Suárez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Luis Suárez hefur farið á kostum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en þrátt fyrir sextán mörk og sex stoðsendingar í 22 leikjum hjá Úrúgvæmanninum þá er Liverpool aðeins í sjöunda sæti deildarinnar.

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, hefur talað um að liðið þurfi að ná Meistaradeildarsæti til þess að halda Luis Suárez sáttum en Suárez hefur reyndar gert nýjan samning við Liverpool til ársins 2018. Það er ekki alltof líklegt að Liverpool nái Meistaradeildarsæti miðað við frammistöðu liðsins á tímabilinu þótt að þá séu reyndar "aðeins" sjö stig upp í fjórða sætið.

Heitasta slúðursagan í fótboltanum í dag er sú að Pep Guardiola, næsti þjálfari þýska liðsins Bayern Munchen, vilji fá Luis Suárez til félagsins og að Bayern sé tilbúið að borga 40 milljónir fyrir framherjann umdeilda. Spænska blaðið Sport slær þessu meðal annars upp og hefur heimildir fyrir því að Suárez sé ofarlega á óskalista Guardiola.

Guardiola hreinsaði vel til hjá Barcelona þegar hann tók við liðinu haustið 2008 og það má alveg búast við miklum breytingum hjá Bayern í sumar. Hvort að Guardiola reyni eða takist að kaupa Luis Suárez frá Liverpool er hinsvegar önnur saga.

Mynd/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×