Körfubolti

Löng taphrina endar í DHL-höllinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Heil umferð fer fram í Dominos-deild kvenna í körfubolta en tveir leikir fara fram á höfuðborgarsvæðinu og tveir verða spilaðir á Suðurnesjunum. Þetta er 18. umferð deildarinnar en eftir hana eru tíu umferðir eftir af deildarkeppninni.

Reykjanesbæjarliðin Keflavík og Njarðvík mætast Toyota-höllinni í Keflavík og lið séra Friðriks, Haukar og Valur, mætast í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Keflavík er á toppi deildarinnar með sex stiga forskot á Snæfell og tólf stiga forskot á Val sem er í þriðja sætinu. Valskonur hafa unnið fimm deildar og bikarleiki í röð en Haukar töpuðu síðasta leik eftir að hafa unnið tvo fyrstu leiki nýja ársins.

Það er þegar orðið ljóst að lið vinnur langþráðan sigur í kvöld þegar KR tekur á móti Fjölni í DHL-höllinni. KR hefur tapað fimm leikjum í röð í deild og bikar og Fjölniskonur hafa þurft að sætta sig við sjö deildartöp í röð. Bæði lið hafa þurft að sætta sig við naum töp á síðustu vikum og þyrstir því örugglega í sigurinn.

Lokaleikur kvöldsins er síðan á milli Grindavíkur og Snæfells í Grindavík. Snæfell vann leik liðanna í Grindavík í lok nóvember með mögnuðum endaspretti þar sem liðið vann síðustu fjórar mínúturnar 10-0 og breytti stöðunni úr 76-73 fyrir Grindavík í 83-76 fyrir Snæfell sem urðu lokatölurnar.

Leikir kvöldsins í Dominos-deild kvenna í körfubolta:

19.15 Grindavík - Snæfell (Grindavík)

19.15 Keflavík - Njarðvík (Toyota höllin)

19.15 Haukar - Valur (Schenkerhöllin)

19.15 KR - Fjölnir (DHL-höllin)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×