Lífið

Sigga Heimis bæjarlistamaður Seltjarnarness

Ellý Ármanns skrifar
Sigga Heimis (Sigríður Heimisdóttir) hönnuður var í dag tilnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness, en hún er sautjándi Seltirningurinn til að hljóta nafnbótina. Nýkrýndur bæjarlistamaður sér tækifæri fyrir bæjarbúa með nafnbótinni og hyggst miðla af þekkingu sinni og reynslu fyrir samfélagið í heild sinni og einnig í samstarfi við skóla og félagsstarf aldraðra á Seltjarnarnesi.

Sigga Heimis er borin og barnfæddur Seltirningur. Hún útskrifaðist sem iðnhönnuður frá Istituto Europeo di Design í Mílanó á Ítalíu og er með meistaragráðu frá Domus Academy í sömu borg. Hún hefur starfað við hönnun í 18 ár, lengst af hjá húsgagnarisanum IKEA í Svíþjóð en einnig sem hönnunarstjóri hjá Fritz Hansen í Danmörku. Síðastliðin 3 ár hefur Sigga rekið eigin teiknistofu en það gerði hún einnig árin 1994-2000 áður en hún hóf störf hjá IKEA. Hún hefur unnið fyrir Vitra hönnunarsafnið í Þýskalandi, Corning glerlistasafnið í New York og tekið þátt í samstarfsverkefnum með íslenskum framleiðendum.

Sigga hefur einbeitt sér að fjöldaframleiddri hönnun, en í dag liggja eftir hana á fjórða hundrað vörutegunda. Hún hefur kennt og haldið fyrirlestra við ólíka háskóla víða um heim og haft yfirumsjón með samstarfi IKEA við hönnunarskóla í fjölmörgum löndum. Þá hefur Sigga haldið hönnunarnámskeið fyrir fjölda nemenda hérlendis sem erlendis.

Síðustu ár hefur hönnun Siggu beinst meira að félagslegri ábyrgð þar sem sjónum er beint að tilgreindu hagsmunamáli. Stærasta verkefni hennar á því sviði eru glerlistaverk af líffærum manna, en tilgangurinn með þeim er að vekja athygli á mikilvægi líffæragjafa.

Af þessu tilefni mun menningarsvið Seltjarnarness efna til sýningar þar sem lögð er áhersla á fjölskrúðuga ljósahönnun Siggu í sýningarsalnum Eiðisskeri, en sýningin verður opnuð á Safnanótt 8. febrúar næstkomandi.

Skoða fleiri myndir hér sem teknar voru við tilnefninguna í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.