Körfubolti

Broussard kom Grindvíkingum í Höllina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Broussard.
Aaron Broussard. Mynd/Anton
Aaron Broussard tryggði Grindavík sæti í bikarúrslitaleiknum í Höllinni þegar hann nýtti annað af tveimur vítum sínum 5,46 sekúndum fyrir leikslok í undanúrslitaleik á móti Keflavík í Toyota-höllinni í Keflavík í dag en Grindavík vann leikinn 84-83. Keflvíkingurinn Billy Baptist átti lokaskot leiksins en það geigaði.

Grindvíkingar eru þar með komnir í Höllina í þriðja sinn á síðustu fjórum árum og í sjöunda skipti frá upphafi en bikarmeistarar Keflavíkur eru hinsvegar úr leik. Grindavík mætir annaðhvort Snæfell eða Stjörnunni í úrslitaleiknum en þau mætast í seinni undanúrslitaleiknum í Stykkishólmi í kvöld.

Grindvíkingar voru mun sterkari fyrir hlé, unnu líka síðustu fjórar mínútur fyrri hálfleiksins 14-4 og voru fjórtán stigum yfir yfir í hálfleik, 45-31. Broussard var frábær í fyrri hálfleiknum og var kominn með 17 stig í hálfleik.

Keflvíkingar fengu góða hálfleiksræðu frá þjálfara sínum Sigurði Ingimundarsyni og unnu sig inn í leikinn á ný í þriðja leikhlutanum sem Keflavíkurliðið vann 30-21.

Lokaleikhlutinn var síðan æsispennandi. Keflvíkingar náðu hinsvegar bara að jafna leikinn margoft en tókst aldrei að komast yfir. Aaron Broussard keyrði upp að körfunni í lokasókn Grindavíkur og kom sér á vítalínuna þar sem hann skoraði síðan sigurstigið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×