Fótbolti

Þjóðverjar þenja lungun fyrstu mínútuna á ný

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stemmningin á Westfalen-leikvanginum, heimavelli Dortmund, er engu lík.
Stemmningin á Westfalen-leikvanginum, heimavelli Dortmund, er engu lík. Nordicphotos/Getty
Stuðningsmenn þýskra knattspyrnuliða ætla að láta af því að þegja fyrstu mínútu leikja í úrvalsdeild karla. Um mótmæli var að ræða gagnvart forráðamönnum þýsku deildarkeppninnar.

Stuðningsmannasamtökin „12:12" staðfestu þetta í dag eftir að hafa þegið boð foráðamanna félaganna í efstu tveimur deildum þýsku knattspyrnunnar.

Í desember greindu forráðamenn þýsku deildarkeppninnar og félögin 36 í efstu tveimur deildunum frá ákvörðun sinni um aukna öryggisgæslu varðandi leit á stuðningsmönnu, eftirlit með reyksprengjum, myndbandseftirlit og betur þjálfað gæslufólk.

Stuðningsmenn höfðu áhyggjur af hertum reglum gagnvart stuðningsmönnum gestaliða og að bannað yrði að selja í stæði. Til skýringar má nefna að Borussia Dortmund getur selt 80 þúsund miða á leiki sína í deild og bikar en 65 þúsund í leikjum á vegum UEFa og FIFA. Þar koma til reglur frá Alþjóðaknattspyrnusamböndunum um að aðeins skuli selt í sæti af öryggisástæðum.

„Að loknu vetrarhléinu munum við ekki lengur tala fyrir þagnarmótmælum." segir á heimasíðu samtakanna.

Þar kemur einnig fram að um fyrsta fund sé að ræða og því sé fagnað að komið sé samband á milli félaganna og stuðningsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×