Fastir pennar

Ári síðar

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Á þessum stað fyrir einu ári voru Íslendingar boðnir velkomnir í bóluna. Þar var því haldið fram að þar sem nóg væri til af peningum á Íslandi, læstum inni í gjaldeyrishöftum, sem þrá að leita í betri ávöxtun yrði eftirspurn eftir fjárfestingum meiri en framboðið. Orðrétt sagði að ?afleiðingin er sú að þrýstingur sem skapast vegna skorts á fjárfestingatækifærum hækkar einn og sér virði eignanna. Undirliggjandi verðmæti þeirra hættir að skipta máli?.

Óhætt er að fullyrða að þetta hafi orðið raunin. Á hlutabréfamarkaði hafa til að mynda öll nýskráð félög, og þau sem hafa ráðist í umtalsverðar hlutafjáraukningar, hækkað gríðarlega. Gengi bréfa í Icelandair hefur hækkað um 230 prósent. Hagar, sem var skráð á markað í desember í fyrra, hefur hækkað um 67 prósent. Fasteignafélagið Reginn, sem skráð var á markað í júlí, um 33 prósent. Bréf í Eimskip, sem voru tekin til viðskipta í síðasta mánuði, hafa þegar hækkað um 10,6 prósent.

Fasteignaverð hækkarAf umræðunni um nauðsyn skuldaniðurfellinga og leiðréttingar á forsendubresti á fasteignamarkaði mætti ráða að fáir ef einhverjir af yngri kynslóð Íslendinga hefðu ráð og rúm til að kaupa sér fasteign. Samt sem áður hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, hækkað um 6,3 prósent á einu ári. Kaupsamningum á fasteignamarkaði á sama svæði hefur fjölgað um 18,5 prósent frá því í fyrra og velta aukist um 33,6 prósent á sama tímabili. Vísitala leiguverðs hefur hækkað um 7,8 prósent frá því í nóvember 2011. Allar hagspár virðast sammála um að fram undan sé umtalsverð raunaukning á virði fasteigna næstu misserin.

Höftin fest í sessiSkuldabréf á gömlu íslensku bankanna virðast líka vera orðin hin prýðilegasta fjárfesting við þær aðstæður sem búið er að sníða þeim. Í lok síðasta sumars hafði hluti þeirra hækkað um 20 prósent á árinu. Þegar sú upphæð er sett í samhengi við þær þúsundir milljarða króna sem eru í þrotabúum bankanna er ljóst að um gríðarlega upphæð er að ræða. Handbremsan sem sett hefur verið á gagnvart nauðasamningum þeirra á undanförnum vikum og mánuðum og umræða um eigendur skuldabréfanna í fjölmiðlum hefur orðið til þess að gengi skuldabréfanna hefur lækkað. Það hefur samt sem áður hækkað um tíu prósent á árinu 2012. Búast má við því að háar upphæðir muni sitja eftir hér innan hafta um ófyrirséða framtíð. Þær upphæðir munu óumflýjanlega leita í innlenda ávöxtun.

Og höftin eru ekkert að fara. Nú virðist enda hafa myndast þverpólitísk sátt um að þau verði við lýði um óákveðinn tíma. Að þau verði opin í annan endann. Samtímis festist bólan, sem blásið var kröftuglega í á árinu 2012, rækilega í sessi.






×