Skoðun

Já, þú varst að vekja mig

Ég lærði nýtt hugtak í dag, póstfeminískt „móðurhlutverksblæti". Ég er 36 ára og er að ljúka mínu þriðja, og vonandi síðasta, fæðingarorlofi. Eftir að dóttir mín fæddist í maí á þessu ári hafa tilfinningar og hugsanir um samfélagslegar væntingar til móðurhlutverksins orðið sífellt ásæknari.

Umræða um móðurhlutverkið og fæðingarorlof markar þennan tíma, fyrst með nýfæddu barni forsetaframbjóðenda og nú með kynbundnum rétti foreldra við yfirvofandi breytingar á fæðingarorlofi. Á sama tíma kemur í ljós að á þeim tuttugu árum sem hafa liðið síðan ég og mínir jafnaldrar svöruðum spurningakönnun um hlutverk kynjanna hefur skilningur unglinga á jafnrétti og stöðu kvenna færst aftur um áratugi.

Rúmum mánuði eftir að dóttir mín fæddist þurfti ég að fara á fund til Reykjavíkur. Dóttir mín kom með enda leið sjaldan lengra en tvær klukkustundir á milli brjóstagjafa á þessum tíma og við búum á landsbyggðinni. Á leiðinni heim var hringt í mig frá Heilbrigðisstofnun byggðarlagsins og hjúkrunarfræðingur bauð upp á valfrjálsa heyrnarmælingu fyrir dótturina, mælingu sem átti að fara fram tveimur dögum seinna. Þann dag rann út frestur til að senda styrkumsóknir í Rannsóknarsjóð Íslands.

Ég var að vinna að umsókn sem skipti mig miklu, bæði fjárhagslega og faglega, og þurfti að nýta allan þann tíma sem ég hafði aflögu. Ég afþakkaði því gott boð, taldi mig þegar hafa orðið vitni að ágætri heyrn dóttur minnar auk þess sem tíminn hentaði illa. Næsta morgun var aftur hringt og boðið áréttað, ég endurtók að það stæði illa á og þar sem skoðunin væri ekki hluti af hefðbundnu ungbarnaeftirliti kysi ég að afþakka. Hjúkrunarfræðingurinn svaraði að bragði „ef þið eruð vanar að sofa fram yfir hádegi get ég alveg gefið þér tíma seinnipartinn". Ég varð orðlaus yfir fordómunum sem fólust í þessum orðum stamaði „já ókei" og kvaddi. Bjó ég virkilega í samfélagi þar sem móðir með ungt barn getur ekki haft neinum aðkallandi erindum að sinna öðrum en að sofa fram yfir hádegi?

Mömmumorgnar

Þegar ég eignast mitt fyrsta barn í janúar 2004 hafði fæðingarorlofsréttur nýlega verið lengdur og feður höfðu fengið sjálfstæðan rétt til orlofstöku. Við foreldrarnir skiptum þessum níu mánuðum jafnt á milli okkar, ég man ekki eftir að annað hafi komið til tals. Á sama tíma og orlofið er lengt, eða kannski vegna þess, eykst á þessum tíma framboð á vörum og afþreyingu sem er sérstaklega beint að nýbökuðum mæðrum. Hægt er að velja um mismunandi mömmuhópa, mömmumorgna, leikfimi fyrir ungabörn og auðvitað fyrir mæðurnar. Hefði maður verið vakandi fyrir því þá var blætisvæðingin þegar komin vel af stað. Mæður og mömmuhópar voru gjarnan flokkaðir, „tengslamömmur", „taubleiumömmur" og „slingmömmur" voru algeng hugtök. Í sex vikna heimsókninni hvatti heimahjúkrunarfræðingurinn mig til að sækja einhverja af þessum hópum þar sem mörgum þætti það leiðigjarnt að vera svona lengi heima með smábarn. Ég taldi mig ekki hafa tíma til þess enda þyrfti ég að skila lokaeintaki af doktorsritgerðinni minni eftir fjóra mánuði. Samtalinu lauk á þeim nótum.

Slingberandi jógamamma

Ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir að skilgreina sjálfa mig sem hluta af stefnum eða menningarkimum. Kannski þess vegna tók ég ekki eftir þeim breytingum sem hafa orðið á samfélagslegum væntingum til mæðra á þessum átta árum sem liðu á milli fyrsta og þriðja fæðingarorlofs. Það hvarflaði t.d. aldrei að mér að þar sem ég baka mjög gjarnan möffins, snúða og gerbollur – jafnvel eftir uppskriftum sem mamma lærði í húsmæðraskóla á sínum tíma – að ég tilheyrði retro-bakstursbylgjunni. Bylgju sem er víst ekki óalgeng meðal kvenna af minni kynslóð. Enn síður gerði ég mér grein fyrir því að sem bakandi, mjólkandi, slingberandi jógamamma væri ég kannski sjálf hluti af upphöfnu móðurhlutverksblæti.

En kannski snýst þetta alls ekki um þessa yfirborðskenndu hluti og hópaskiptingar, þetta snýst um val. Ekki val um að sinna frama og barnauppeldi eða val á milli frama og barnauppeldis heldur val um að vera einstaklingur. Einstaklingur sem hefur vitsmunalegar, andlegar og tilfinningalegar þarfir hvað sem foreldrahlutverkinu líður. Það hlýtur að koma samfélaginu til góða að öllum sé gefið jafnt tækifæri til að vera skapandi og virkur alla ævi, jafnvel í fæðingarorlofi. Móðurhlutverkið verður aldrei skilgreint út frá bollakökum eða taubleium heldur þarf hver og ein móðir að fá tækifæri til að sinna því á sínum forsendum.

Fyrir nokkrum dögum var aftur „umsóknadagur". Ég sit sveitt við tölvuna rétt fyrir hádegi þegar síminn hringir. Eins og svo oft næ ég ekki að svara en hringi til baka. „Var ég að vekja þig?" spyr rödd á hinum enda línunnar. Já, kannski varstu að vekja mig. Vekja mig til meðvitundar um að þrátt fyrir að ég hafi notið þess að sinna skapandi og krefjandi námi og starfi ásamt því að eignast þrjú börn þá er það því miður ekki sjálfgefið að dóttir mín muni baráttulaust njóta sömu réttinda.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×