Skoðun

Til hjálpar lögreglunni

Pétur Gunnarsson skrifar
Miðlarnir voru að segja frá fjárhagsvandræðum lögreglunnar sem eins og aðrir hefur komið hart niður í harðindunum. Og nú sé svo komið að hún sjái sér ekki fært að gegna jafnvel brýnustu skyldum, hvað þá ef eitthvað óvænt kæmi upp á.

Þetta er ekki gott. En því er ég að blanda mér í málið að undanfarin mörg ár hef ég þóst sjá ólitla tekjulind löggæslunnar – ónýtta. Samkvæmt upplýsingum Umferðarstofu eru farnar um 600 þúsund ökuferðir um götur Reykjavíkur á hverjum sólarhring. Lausleg könnun hefur leitt í ljós að í þriðja hverjum bíl sé bílstjóri að tala í síma undir stýri.

Við því munu vera viðurlög, furðu væg, 5.000 kr. sekt. Sér lögreglan virkilega ekki hvílíkur makrílstofn syndir hér um götur? Segjum að hún sektaði ekki nema 1% af öllum þeim grúa, það gæfi henni engu að síður tíu milljónir á dag, 300 milljónir á mánuði, þrjá milljarða rúma á ári! Þetta eru reykvískir bílstjórar reiðubúnir að greiða fyrir að fá að tala í síma undir stýri og einkennilegt að löggæsla í fjárhagssvelti skuli fúlsa við slíkum upphæðum.

Í fyllstu vinsemd.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×