Skoðun

Sjáumst!

Í skammdeginu eru ljósin kveikt á bílunum til þess að auðvelda sýnileika þeirra í umferðinni. En hvað með aðra í umferðinni? Hvernig aukum við sýnileika vegfarenda? Þar koma endurskinsmerki til sögunnar en þau eru örugg, ódýr og auðveld leið til að sjást betur í myrkri.

Þeir sem bera endurskinsmerki sjást fyrr heldur en þeir sem ekki hafa endurskin. Ökumaður sér vegfaranda með endurskinsmerki úr 120-130 m fjarlægð en ef viðkomandi er ekki með endurskin þá sjást gangandi vegfarendur ekki fyrr en úr 20-30 metra fjarlægð. Ökumaður sem ekur á 60 km hraða þarf um það bil 37 metra til að stöðva bílinn ef undirlagið er þurrt. Þess vegna er mikilvægt að vegfarendur sjáist sem allra fyrst í myrkrinu.

Staðsetning endurskinsmerkja er mjög mikilvæg. Merkin þurfa að vera neðarlega og fest þannig að bílljós lýsi á þau í sem mestri fjarlægð frá öllum hliðum. Gott er að hafa þau fremst á báðum ermum, hangandi úr hliðarvösum, framan og aftan á úlpu, á skóm, neðarlega á buxnaskálmum eða á bakpokum og skólatöskum. Mikilvægt er að merkin séu heil, órispuð og hrein.

Umferð annarra en gangandi vegfarenda hefur aukist á síðustu árum. Hjólreiðamenn eru á ferðinni allt árið og hið sama gildir um hlaupara og reiðmenn. Þessir einstaklingar verða líka að huga að eigin öryggi og eru endurskinsmerki góð leið til þess. Endurskinsmerki er hægt að fá úr hinum ýmsu efnum, stærðum og gerðum þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Þá er ekki síður mikilvægt að ökumenn séu með endurskinsvesti í bílum sem gott er að grípa í til dæmis ef þarf að skipta um dekk þar sem lýsing er ekki mikil.

Áður en farið er í göngu með hundinn eða í reiðtúr þá er gott að huga að því að setja endurskin á dýrin. Til eru endurskinsmerkjaborðar sem smellt er utan um hófa hesta og endurskinshálsólar fyrir hunda og ketti.

Börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum og við viljum að þau sjáist í umferðinni. Til að þau noti endurskinsmerki þurfum við fullorðna fólkið líka að nota endurskinsmerki. Hugum að öryggi okkar og barnanna, notum endurskin við allar aðstæður og sjáumst í umferðinni.




Skoðun

Sjá meira


×