Skoðun

Hringjum bjöllum gegn einelti

Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir og Ögmundur Jónasson skrifar
Ofsóknir, þrálát áreitni, stríðni og ofbeldi. Allt eru þetta orð sem koma upp í tengslum við skilgreiningu orðabókar á hugtakinu einelti. Þessi orð lýsa ekki saklausri háttsemi, þvert á móti, alvarlegu ofbeldi, sem í eðli sínu er niðurbrjótandi. Í því felst að niðurlægja, móðga, særa, mismuna og ógna manneskju ítrekað. Kynferðisleg áreitni fellur hér undir, en einnig andlegt og líkamlegt ofbeldi.

Einelti fær aðeins þrifist að samfélagið leyfi það, að hinir þöglu áhorfendur aðhafist ekki, horfi í aðra átt, oftast fremur vegna andvaraleysis en illsku. Þess vegna getum við, hvert og eitt, lagt okkar lóð á vogarskálarnar í að útrýma einelti. Það gerum við með því að hafa góð áhrif á okkar eigið umhverfi, beita ekki valdi í samskiptum, bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum og neita að taka þátt í þögninni.

Í dag, 8. nóvember, gefst okkur tækifæri til að sýna táknrænan stuðning við baráttuna gegn einelti og gegn þögninni. Við, sem undir þetta ritum, hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til að hringja bjöllum eða þeyta flautur, um allt land, helst um allan heim, á slaginu 13.00 í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar.

Baráttan gegn einelti veltur á okkur öllum. Við getum stöðvað það.

Sjá nánar: www.gegneinelti.is




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×