Skoðun

Nýju fötin keisarans

Heiðar Már Guðjónsson skrifar

Þrír hagfræðingar Seðlabanka Íslands rituðu svargrein á laugardag, 9. október, við grein okkar Manuel Hinds um staðreyndavillur í skýrslu Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Það er ágætt að þeir skuli bregðast við gagnrýni, en lakara að svörin eru útúrsnúningar.



Hagfræðingarnir svara til dæmis ásökunum um staðreyndavillur í tilvitnunum í fræðigreinar, þar sem rangt var farið með niðurstöður, með því að tína til aðrar greinar sem ekki var vísað í umfjölluninni um þessi tilteknu atriði. Eins segja þeir að fullyrðingar í skýrslunni beri ekki skilja í samræmi við íslenska málvenju, s.s. í sambandi við ástand mála í El Salvador, heldur með einhverjum allt öðrum hætti sem öllu venjulegu fólki er ómögulegt að skilja. Seðlabankinn heldur einnig fast við þá kenningu sína, sem er einstök, að kostnaður við einhliða upptöku annars gjaldmiðils sé allt grunnfé kerfisins, frekar en seðlar og mynt í umferð.

Vald Seðlabankans

Seðlabanki Íslands hefur aldrei verið valdameiri í sögu Íslands. Skýrt er kveðið á um sjálfstæði bankans í lögum frá 2001, og í skjóli þess neitar bankinn t.d. að upplýsa viðskipta- og efnahagsnefnd Alþingis, sem þó á að veita bankanum aðhald, um flestar upplýsingar. Seðlabankanum var síðan fengið æðsta vald um allar gjaldeyrishreyfingar landsins árið 2009 og þar með er bankinn orðinn valdamesta stofnun landsins gagnvart viðskiptalífinu og öllum almenningi.



Seðlabanki Íslands, sem stýrt er af sömu aðilum og keyrðu tvær peningastefnur í þrot, vill nú fá aukin völd og reyna í þriðja sinn, með aðstoð hafta. Allt er þetta stutt miklum skýrslum sem margir trúa í blindni. Allt er þetta ótrúverðugt. Hvað þætti fólki um ef bankastjórar föllnu bankanna myndu skrifa skýrslu um endurreisn nýs fjármálakerfis og færu fram á ótakmörkuð völd til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd?

Ábyrgð Seðlabankans

Valdi fylgir ábyrgð. Seðlabankinn getur ekki byggt ákvarðanir sínar á tilfinningum eða rangfærslum. Því miður er það svo að bankinn veit ekki einu sinni hver skuldastaða þjóðarinnar er í raun og veru, og ef hann veit það hefur hann ekki fengið sig til að viðurkenna það. Í riti sínu „Hvað skuldar þjóðin“, sem kom út í febrúar 2011, hélt bankinn því ranglega fram, vikum fyrir kosningar um Icesave, að staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum væri betri en hún í raun og veru var. Seðlabankinn sagði að skuldastaðan gagnvart útlöndum væri um 23% af landsframleiðslu á meðan raunin var fjórum sinnum verri. Á grundvelli þessa mats hafa rangar, og afdrifaríkar, ákvarðanir verið teknar og nægir þar að nefna útgreiðslur úr þrotabúum föllnu bankanna.

Efnislítil klæði

Seðlabanki Íslands reynir að breiða yfir villur sínar með útúrsnúningum. Það samræmist engan veginn ábyrgð hans. Hvað varðar fullyrðingar bankans og skýrslur eru þær jafn efnislitlar og klæði keisarans í ævintýri H.C. Andersen.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×