Skoðun

Utanríkisstefna Norðurþings

Einar Benediktsson skrifar
Í kjölfar nýjunga í stjórn landsins á síðustu tímum, mætti spyrja hvort svo sé komið að utanríkismál færist á sveitarstjórnarstigið? Vilja Þingeyingar taka að sér að móta nýja stefnu um tengsl lands og þjóðar gagnvart Kína? Framundan er vonandi nýting jarðhita fyrir stóriðju hjá Húsavík. Það er gott og blessað enda til hagsbóta fyrir Norðurþing og landsmenn alla. Hins vegar er með öllu fráleitt, að látið sé undan ágangi Kínverja um að stofna til stórfelldra umsvifa á Grímstöðum á Fjöllum í þeirra eigin eða leigðu landrými, með flugvélakost, eigin flugvöll og fleiru.

Þó kastar fyrst alveg tólfunum þegar talsmaður Huangs Nubo upplýsir að horft sé til stórfelldrar uppbyggingar við Finnafjörð. Þar eigi að vera stórskipahöfn með rými fyrir olíuflutningaskip og olíuborpalla með stóru svæði fyrir olíuhreinsunarstöð. Umfram annað þarf þó væntanlega að tryggja umskipunarhöfn Kínverja nyrst á Austfjörðum vegna mikilla siglinga kaupskipaflota þeirra. Það er jafnvel enn fráleitara enda yrði mörkuð stefna á víðfemt yfirráðasvæði Kínverja á Íslandi. Þar með yrðu heimsveldisumsvif þeirra færð til Íslands um óráðna framtíð.

Það var erfið barátta að tryggja þjóðaröryggi Íslands með hervörnum. Þetta er nefnt þegar því var tekið sem gleðitíðindum af talsmönnum Huangs útsendara Kína, annars helsta herveldis heims, að Kínverjar fái til umráða 300 fkm lands á Grímsstöðum nánast um aldur og ævi til að ryðja sér til rúms á Norðurskautinu. Kínverjar eru þegar eigendur hluta stóriðjunnar hér á landi og ætla sér meira sem tekið verður til athugunar.

Nú berast þær fregnir að allar viðskiptaáætlanir Huangs séu lítt marktækar. Annars fara að kvikna vonir um að hann sé sjálfur búinn að fá nóg af þessu mislukkaða Íslandsævintýri þegar hann í háskólaræðu í Shanghai lýsir yfir að „Íslendingar eru veikgeðja og sjúkir. Þeir verða óttaslegnir þegar frambærilegan ungan mann ber að garði.“ Fréttablaðið hefur bent á bókina Kínverjinn eftir Henning Mankell sem athyglisverða lesningu og skal tekið undir það. Gæti útgefandinn ekki sent slatta af bókinni til Húsavíkur?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×