Innlent

Forskot Ólafs Ragnars stórt

Ólafur Ragnar Grímsson er líklegur til að hljóta endurkjör til næstu fjögurra ára í embætti forseta Íslands ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var í gær og fyrrakvöld.

Ólafur Ragnar nýtur samkvæmt könnuninni stuðnings 57 prósenta kjósenda og hefur stuðningur við hann staðið í stað frá könnun sem gerð var fyrir tveimur vikum.

Þóra Arnórsdóttir fengi samkvæmt könnuninni 30,8 prósent atkvæða og hefur stuðningur við hana heldur aukist frá síðustu könnun.

„Munurinn á Ólafi og Þóru samkvæmt þessari könnun er mjög mikill, og má nánast segja að hann sé óyfirstíganlegur," segir Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Aðrir frambjóðendur eru ekki líklegir til stórræða í kosningunum á morgun samkvæmt könnuninni. Alls segja 7,5 prósent þeirra sem afstöðu taka að þeir ætli að kjósa Ara Trausta Guðmundsson. Um 2,6 prósent kjósenda styðja Herdísi Þorgeirsdóttur samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, 1,7 prósent Andreu J. Ólafsdóttur og 0,3 prósent Hannes Bjarnason.

Enn hefur stór hluti þjóðarinnar ekki gert upp hug sinn til frambjóðendanna. Um 23,2 prósent þeirra sem þátt tóku í könnuninni sögðust ekki búin að ákveða hvern þau myndu kjósa. Það er heldur lægra hlutfall en í síðustu könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem gerð var fyrir tveimur vikum, en mjög hátt svo skömmu fyrir kosningar.

- bj / sjá síðu 4




Fleiri fréttir

Sjá meira


×