Skoðun

Stuðningsgrein: Ákaflega stoltur Íslendingur

Margrét Dagmar Ericsdóttir skrifar
Ég hef átt þess kost að kynnast frá fyrstu hendi hluta af því ötula starfi sem núverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, og eiginkona hans, Dorritt Moussaieff, inna af hendi í þágu Íslands. Það er okkar litla landi ómetanlegt að hafa slíkt fólk í forsvari.

Ólafur Ragnar hefur á áratugalöngum ferli sínum byggt upp einstakt tengslanet um allan heim, bæði við aðra þjóðarleiðtoga og fjölmarga einstaklinga og stofnanir sem eru leiðandi á ýmsum sviðum. Hvað sem landsmönnum finnst um ákvarðanir um að vísa umdeildum málum í þjóðaratkvæði, þá er ekki um það deilt að það vakti athygli á Íslandi og aðstæðum Íslendinga um allan heim og enginn forustumaður Íslands hefur haft slíka áheyrn á alþjóðavettvangi eins og Ólafur Ragnar.

Eiginkona Ólafs, Dorrit Moussaieff, er einstakur dugnaðarforkur sem hvergi dregur af sér við að koma Íslandi og Íslendingum á framfæri á erlendri grund og það hefur í mörgum tilfellum reynst ómetanlegt. Við vorum svo lánsöm að fá Dorrit til liðs við okkur við gerð heimildarmyndarinnar Sólskinsdrengurinn. Dorrit var verndari myndarinnar og hefur verið ötull baráttumaður fyrir bættum hag einhverfra. Dorrit fékk Kate Winslet til að gefa sína vinnu og lesa enska þulartextann við myndina og í framhaldi af því stofnaði Kate Winslet góðgerðarsamtökin, The Golden Hat Foundation, til frekari stuðnings við einhverfa. Það er allt í lagi að geta þess að samtökin hafa nánast keypt alla sína aðkeyptu þjónustu frá Íslandi eins og heimasíðugerð og markaðsherferðir. Dorrit hefur verið einstaklega dugleg að hjálpa til með sinni einskæru og fallegu góðmennsku eins og hún er kunn fyrir.

Ég hef aldrei kynnst öðrum eins Íslandsvini eins og Dorrit Moussaieff. Hún elskar Ísland og það hefur verið gaman að kynnast einstaklingi sem ber jafn mikla virðingu fyrir Íslandi og sér jafn mikil tækifæri á Íslandi eins og hún gerir. Mér finnst það sérstakt og dásamlegt þar sem ég er Íslendingur og finnst Ísland bara vera Ísland, ekkert meira eða merkilegra en það. En ég hef kynnst landi mínu á annan og stórbrotnari veg eftir að ég kynntist þessari sterku hugsjónakonu og mikla Íslandsvini. Hún hefur kynnt mér landið á nýjan og töfrandi hátt og opnað augu mín fyrir því að taka því ekki sem sjálsögðum hlut. Hún hefur kennt mér að meta eigin þjóð og land að verðleikum og gert mig að ákaflega stoltum Íslendingi.

Ég hef oft hugleitt að þar sem hún hefur kallað á viðhorfsbreytingu mína gagnvart eigin landi og þjóð, hvað hún og Ólafur Ragnar eru áhrifaríkir fulltrúar erlendis til gagns fyrir alla Íslendinga. Þess vegna kom mér ekki á óvart þegar Dorrit sagði mér að hún hefði sannfært Mörtu Stewart um að gera heilan sjónvarpsþátt um Ísland og íslenskar afurðir. Allt í þeim tilgangi að trekkja að ferðamenn hvaðanæva að úr heiminum og til að selja meira af íslenskum vörum. Það besta við Dorrit og Ólaf er að þau sýna orð í verki og þannig nýtist það landi og þjóð beint.

Dorrit var búin að segja mér að hún vildi meðal annars hafa kynningu á íslenska hestinum sem mér fannst frábært og sá fyrir mér myndir af hestum eða myndbrot af hestum og fannst það mjög góð hugmynd hjá henni. En Dorrit vill alltaf leggja sig alla fram þegar Ísland er annars vegar og kom ríðandi inn í eldhúsið í þættinum hennar Mörtu Stewart á þessum líka fallega íslenska gæðingi sem vakti þvílíka lukku allra viðstaddra. Hún kynnti meðal annars lopapeysuna okkar, smjörið og skyrið, fiskinn okkar, sælgætið og landið sem spennandi áfangastað svo eitthvað sé nefnt. Það vildi svo til að ég var í New York á þessum tíma og gat því verið í þættinum ásamt fleiri Íslendingum sem voru að kynna sínar vörur. Í þættinum var hún svo sannfærandi að ég sem Íslendingur gat ekki einu sinni beðið eftir því að komast heim aftur og smakka allt þetta ljúfmeti sem hún kynnti þarna. Svoleiðis upplifi ég forsetahjónin, Ólaf Ragnar og Dorrit, þau eru í þessu af lífi og sál og vilja allt það besta fyrir land sitt og þjóð.

Ég styð því Ólaf Ragnar Grímsson heilshugar til áframhaldandi setu í embætti forseta Íslands og vona að Íslendingar eigi eftir að njóta krafta þeirra hjóna áfram, okkur til hagsbóta og farsældar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×