Skoðun

Spurningar áréttaðar

Þórólfur Matthíasson skrifar
Í grein hér í blaðinu þann 3ja maí síðastliðinn spurði ég forystu Bændasamtaka Íslands, að gefnu tilefni, nokkurra spurninga. Nú eru liðnar þrjár vikur frá birtingu greinarinnar og í millitíðinni hefur málgagn Bændasamtakanna, Bændablaðið, komið út.

Bændaforystan ætti því að hafa haft bæði tíma og tækifæri til að svara spurningum mínum. En fyrir utan ósannindi og dylgjur hafa þeir hvorki gert tilraun til að upplýsa almenning og félagsmenn sína um skuldamál og fjárreiður samtakanna og fyrirtækja í eigu Bændasamtakanna. Reyndar hafa óbreyttir bændur verið furðu þögulir og ekki þjakað forystu sína með fyrirspurnum.

Þögn forystumanna bænda og Bændablaðsins er afhjúpandi. Hún segir okkur að forystumennirnir og Bændablaðið telji hvorki félagsmenn sína né almenning (sem borgar drjúgan part af kostnaði við rekstur samtakanna) eigi kröfu á skýringum á milljarða halla á hótelrekstri samtakanna. Hún segir okkur að Bændablaðið annað hvort getur ekki eða vill ekki sjá og fjalla um bjálkana í auga bændasamtakanna (en leiðaraskríbent þess blaðs er annars fundvís á flísar í augum meginlandsbúa). Þögn forystumanna bænda og Bændablaðsins segir okkur að þessir aðilar telji að skattgreiðendur eigi enga heimtingu á skýringum á meðferð geymslufjár, en geymslufé er skattfé sem Bændasamtökunum er falið að greiða til bænda.

Þögn Bændasamtakanna er í anda útrásarvíkingsins sem sagði: Ég á þetta, ég má þetta, þetta kemur þér ekki við. Er það virkilega svo að þessi afstaða endurspegli hug allra bænda á Íslandi? Telja forystumenn bænda að það sé sjálfsagt mál að til þeirra sé ausið fé úr ríkissjóði án þess að á móti komi greinargerð til skattgreiðenda um ráðstöfun fjárins?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×