Viðskipti innlent

Eignir jukust um 462 milljónir

HS orka Félagið á meðal annars Reykjanesvirkjun.fréttablaðið/valli
HS orka Félagið á meðal annars Reykjanesvirkjun.fréttablaðið/valli
Hækkun á heimsmarkaðsverði á áli varð til þess að eignir HS Orku jukust um 462 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Ástæðan er sú að hluti orkusölusamninga HS Orku er bundinn við sveiflur í heimsmarkaðsverðinu. Það hefur lækkað mjög skarpt frá því að það reis sem hæst um mitt ár 2008 og sú lækkun kostaði HS Orku um 1,5 milljarða króna á árinu 2011. Á síðustu misserum hefur það hins vegar verið að hækka á ný.

Tekjur félagsins námu 1.841 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaður fyrir fjármagnsliði var 648,6 milljónir króna en alls tapaði félagið átta milljónum króna þegar búið var að greiða þá. Þar munaði mestu um gengistap upp á 718 milljónir króna, en hækkun á álverðsafleiðunni vann á móti því tapi.

Jarðvarmi slhf., sem er í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, jók við hlut sinn í HS Orku í febrúar með hlutafjáraukningu. Eftir hana jókst eignarhlutur Jarðvarma úr 25 prósentum í 33,4 prósent. Fyrir hið nýja hlutafé greiddi Jarðvarmi 4,7 milljarða króna. Til stendur að skrá HS Orku á markað sem fyrst. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×