Skoðun

Barnaskattar Jóhönnu

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fer mikinn í ritdeilu við þann aldna heiðursmann Matthías Bjarnason hér á síðum blaðsins. Matthíasi ofbauð skattlagning á barnabörn sín og benti á að fjármagnstekjuskattar hefðu hækkað mjög í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Einnig taldi hann það vera ósanngjarnt að fjármagnstekjuskattur væri tekinn af verðbótum og hvatti til sparnaðar ungmenna með því að skora á „stjórnvöld að fella niður fjármagnstekjuskatt á öll börn að 16 ára aldri. Með því móti yrðir stuðlað að stórauknum sparnaði barna og ungmenna.”

Þegar ástandið í efnahagsmálum er eins og það er núna og verðbólga mikil, getur staðan hreinlega orðið þannig að ávöxtun sparifjár verði neikvæð með skattlagningu verðbóta. Matthías gerir ekkert nema mótmæla skattlagningu á börn, vekja athygli á ósanngirninni sem felst í skattlagningu verðbóta og hvetja til aðgerða til að efla sparnað.

Hver eru viðbrögðin? Jú, Jóhanna svaraði Matthíasi og vandaði honum ekki kveðjurnar. Hún sakaði hann m.a. um þráhyggju, væntanlega vegna þess að hann benti á staðreyndir máli sínu til stuðnings. Fátt fer meira í taugarnar á forsætisráðherra en þegar fólk leyfir sér að gera það. Í þessu tilviki hefði Jóhanna þó átt að fagna ábendingunni, enda sjálf talið sig andstæðing skattlagningar barna, í það minnsta þegar hún var í stjórnarandstöðu.

En skoðum barnaskattastefnu Jóhönnu að öðru leyti en því sem viðkemur fjármagnstekjunum. Hvernig skyldi tekjuskatti barna vera háttað? Fjárhæð frítekjumarks barna yngri en 16 ára var 8.395 krónur á mánuði þegar Jóhanna tók við - og er enn 8.395 krónur!

Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 40% og vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað um 50%.

Ég veit ekki hvaða orð stjórnarandstöðuþingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir hefði notað til að lýsa þessu en þau hefðu verið stór. Kannski hefði hún notað orðin barnaskattpíningarstefna?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×