Hagsmunaárekstrar í heilbrigðisþjónustu Teitur Guðmundsson skrifar 10. apríl 2012 06:00 Nýleg umræða um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja og þingsályktunartillaga þeirra Eyglóar Harðardóttur og Margrétar Tryggvadóttur, sem ætlað er að herða reglur og tryggja að fjárhagslegir hagsmunir heilbrigðisþjónustuaðila tengist ekki meðferð eða ráðgjöf sjúklinga, hefur vakið athygli. Ýmsir aðilar hafa komið fram í kjölfarið og rætt þessi samskipti og sitt sýnist hverjum. Það er hins vegar ljóst að opinská umræða og gagnsæi verður að vera til staðar og er lykillinn því að ná málefnalegri niðurstöðu. Til glöggvunar er óheimilt að auglýsa lyfseðilskyld lyf hérlendis eða vekja athygli á þeim með öðrum hætti en beint til heilbrigðisstarfsmanna, þessu er svipað farið víðast hvar í Evrópu. Markaðsstarfið beinist einna helst að læknum sem eru vörsluaðilar hins dýrmæta valds að ákveða hvaða lyf skuli skrifað út hverju sinni. Þá hefur til gamans verið notuð myndlíkingin að penni læknis sé dýrasta tækið í heilbrigðisþjónustunni, en ljóst er að mikil ábyrgð fylgir slíku valdi. En í flestum tilvikum er um að ræða meðferð eða rannsóknir sem ríkið eða tryggingafélag viðkomandi greiðir að stærstum hluta. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er bent á ýmsa þætti sem hafa áhrif og vísað í rannsóknir um ávísanahegðun lækna og í því samhengi bent á tölulegar staðreyndir um kostnað lyfjafyrirtækja vegna markaðssetningar. Þá er vísað í að í Bandaríkjunum hafi verið sett lög á síðasta ári er varða upplýsingar um að greiðslur til lækna og heilbrigðisstofnana verði gerðar opinberar frá 2013. Þegar hafa nokkur fyrirtæki birt þessar upplýsingar þar í landi og eru tölurnar sláandi eða allt frá nokkur þúsund krónum vegna máltíðar uppí margar milljónir til einstaka læknis fyrir fyrirlestur. Styrkveitingar til rannsókna, aðkeypt ráðgjafaþjónusta o.m.fl. getur hlaupið á tugum milljóna. Þegar horft er til þess að fjárhagslegir hagsmunir geti haft áhrif á hegðan þá er auðvitað ljóst að þar er mjög vandratað. Þessu til staðfestingar hafa saksóknarar í Þýskalandi nýverið hrundið af stað umfangsmiklum málsóknum gegn fjölda krabbameinslækna, apóteka og lyfjafyrirtækja þar í landi vegna gruns um mútuþægni í tengslum við lyfjagjöf krabbameinssjúkra. Samtökum lækna hefur verið ljóst að bregðast þurfi við og traust sjúklinga og heilbrigðisyfirvalda er undirstaða þess að læknar hafi lækningaleyfi. Siðfræðiráð Læknafélags Íslands ályktaði árið 2005 um þessi mál auk þess sem læknar ættu að tilgreina hagsmunatengsl sín þegar þeir birta vísindagreinar og erindi sem fjalla um læknisfræðileg málefni. Ekki hefur verið gerð krafa um að birta tölulegar upplýsingar um þóknanir eða greiðslur opinberlega hérlendis. Í heimi vísindanna er mikilvægt að það fáist nægjanlegt fjármagn til rannsókna og framþróunar, sérfræðiþekking er verðmæt og fyrir hana ber að greiða en á sama tíma verður að tryggja bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu fyrir sem minnst af almanna- og tryggingafé. Grundvöllurinn fyrir því er gagnkvæmt traust milli aðila, skýrar leikreglur og gagnsæi. Læknar þurfa að rísa undir því mikla trausti sem þeim er veitt og þeim fjármunum sem þeir ávísa á hverjum degi úr vasa sjúklings og ríkisins, auk þess að veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu sem er sniðin að þörfum þeirra sem til okkar leita. Almennt gera læknar það af stakri prýði og með fyrrgreinda hagsmuni að leiðarljósi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Teitur Guðmundsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun
Nýleg umræða um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja og þingsályktunartillaga þeirra Eyglóar Harðardóttur og Margrétar Tryggvadóttur, sem ætlað er að herða reglur og tryggja að fjárhagslegir hagsmunir heilbrigðisþjónustuaðila tengist ekki meðferð eða ráðgjöf sjúklinga, hefur vakið athygli. Ýmsir aðilar hafa komið fram í kjölfarið og rætt þessi samskipti og sitt sýnist hverjum. Það er hins vegar ljóst að opinská umræða og gagnsæi verður að vera til staðar og er lykillinn því að ná málefnalegri niðurstöðu. Til glöggvunar er óheimilt að auglýsa lyfseðilskyld lyf hérlendis eða vekja athygli á þeim með öðrum hætti en beint til heilbrigðisstarfsmanna, þessu er svipað farið víðast hvar í Evrópu. Markaðsstarfið beinist einna helst að læknum sem eru vörsluaðilar hins dýrmæta valds að ákveða hvaða lyf skuli skrifað út hverju sinni. Þá hefur til gamans verið notuð myndlíkingin að penni læknis sé dýrasta tækið í heilbrigðisþjónustunni, en ljóst er að mikil ábyrgð fylgir slíku valdi. En í flestum tilvikum er um að ræða meðferð eða rannsóknir sem ríkið eða tryggingafélag viðkomandi greiðir að stærstum hluta. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er bent á ýmsa þætti sem hafa áhrif og vísað í rannsóknir um ávísanahegðun lækna og í því samhengi bent á tölulegar staðreyndir um kostnað lyfjafyrirtækja vegna markaðssetningar. Þá er vísað í að í Bandaríkjunum hafi verið sett lög á síðasta ári er varða upplýsingar um að greiðslur til lækna og heilbrigðisstofnana verði gerðar opinberar frá 2013. Þegar hafa nokkur fyrirtæki birt þessar upplýsingar þar í landi og eru tölurnar sláandi eða allt frá nokkur þúsund krónum vegna máltíðar uppí margar milljónir til einstaka læknis fyrir fyrirlestur. Styrkveitingar til rannsókna, aðkeypt ráðgjafaþjónusta o.m.fl. getur hlaupið á tugum milljóna. Þegar horft er til þess að fjárhagslegir hagsmunir geti haft áhrif á hegðan þá er auðvitað ljóst að þar er mjög vandratað. Þessu til staðfestingar hafa saksóknarar í Þýskalandi nýverið hrundið af stað umfangsmiklum málsóknum gegn fjölda krabbameinslækna, apóteka og lyfjafyrirtækja þar í landi vegna gruns um mútuþægni í tengslum við lyfjagjöf krabbameinssjúkra. Samtökum lækna hefur verið ljóst að bregðast þurfi við og traust sjúklinga og heilbrigðisyfirvalda er undirstaða þess að læknar hafi lækningaleyfi. Siðfræðiráð Læknafélags Íslands ályktaði árið 2005 um þessi mál auk þess sem læknar ættu að tilgreina hagsmunatengsl sín þegar þeir birta vísindagreinar og erindi sem fjalla um læknisfræðileg málefni. Ekki hefur verið gerð krafa um að birta tölulegar upplýsingar um þóknanir eða greiðslur opinberlega hérlendis. Í heimi vísindanna er mikilvægt að það fáist nægjanlegt fjármagn til rannsókna og framþróunar, sérfræðiþekking er verðmæt og fyrir hana ber að greiða en á sama tíma verður að tryggja bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu fyrir sem minnst af almanna- og tryggingafé. Grundvöllurinn fyrir því er gagnkvæmt traust milli aðila, skýrar leikreglur og gagnsæi. Læknar þurfa að rísa undir því mikla trausti sem þeim er veitt og þeim fjármunum sem þeir ávísa á hverjum degi úr vasa sjúklings og ríkisins, auk þess að veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu sem er sniðin að þörfum þeirra sem til okkar leita. Almennt gera læknar það af stakri prýði og með fyrrgreinda hagsmuni að leiðarljósi.