Lífið

Andri á slóðir Vestur-Íslendinga

Þriðja þáttaröðin með Andra Frey Viðarssyni verður tekin upp í Kanada í júlí.
Þriðja þáttaröðin með Andra Frey Viðarssyni verður tekin upp í Kanada í júlí.
Sjónvarpið hefur ákveðið að taka upp þriðju þáttaröðina með Andra Frey Viðarssyni á slóðum Vestur-Íslendinga í Kanada. Tökur eru fyrirhugaðar í júlí.

„Við erum nýbyrjaðir að varpa hugmyndum á milli okkar og kortleggja þetta. Það er endalaust hægt að gera þarna," segir Andri Freyr sem býst við því að sex þættir verði gerðir.

Ferðalagið til Kanada leggst vel í Andra Frey, fyrir utan hinn mikla hita sem er þar í júlí. „Hann fer illa í mig. Þetta er heitasti tíminn þarna, um 36 til 37 gráður. Svo er eins og það sé einhver mígandi upp í loftið, það er svo mikill raki þarna. Þetta er eins og að búa í handakrikanum á einhverjum manni," segir hann kvíðinn.

Andri Freyr á sjálfur skyldmenni í Kanada, eins og margir aðrir Íslendingar en hefur aldrei hitt þau. „Pabbi segir að þau séu ógeðsleg en amma segir að þau séu fín. Það kemur í ljós. Það er vonandi að þetta sé bara hæfileg blanda."

Þættirnir Andri á flandri og Andraland, sem nú er sýndur í Sjónvarpinu, hafa fengið mjög góðar viðtökur og kemur því ekki á óvart að þriðja þáttaröðin sé í undirbúningi. Andraland verður reyndar ekki á dagskrá á fimmtudaginn vegna beinnar útsendingar frá handboltaleik. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×