Skoðun

Lífeyriskerfið þarf að endurmeta

Ögmundur Jónasson skrifar
Róttækrar hugsunar er þörf til að endurskipuleggja lífeyriskerfi landsmanna. Í ljósi reynslunnar þarf að endurskoða alla stefnumótun og lagaumgjörð. Fólki mislíkar að fjármunir þess séu háðir duttlungum markaðar í þeim mæli sem nú er, en ekki nýttir til markvissarar uppbyggingar á innviðum samfélagsins eins og gert var í meira mæli fyrr á tíð.

Þá er augljóst að lífeyrissjóðakerfið í núverandi mynd er orðið of stórt fyrir íslenska hagkerfið. Lífeyrissjóðirnir fjárfesta fyrir um 120 milljarða á ári. Helminginn mega þeir fara með úr landi, svo framarlega sem gjaldeyrisforðinn leyfir. Hinn helminginn verða þeir að fjárfesta hér heima. Það geta þeir gert hjá ríki og sveitarfélögum, sem að mínum dómi er heppilegasti kosturinn. En eftirspurn opinberra aðila eru takmörk sett og má hugsa sér að hluti þess fjármagns sem fólk leggur til lífeyris, og byggir á sjóðsmyndun, fari til fjárfestinga í atvinnulífinu.

Ég tel hins vegar að blandan í okkar lífeyriskokkteil þurfi að breytast hvað varðar ráðstöfun iðgjalda og aðra fjármögnun á kerfinu. Að mínu mati þarf að minnka hina markaðsvæddu sjóðsmyndun. Ég tel að falla eigi frá fyrri áformum um að draga markvisst úr vægi almannatrygginga í lífeyriskerfinu. Alamannatryggingar mætti fjármagna að hluta til með iðgjöldum sem rynnu til Almannatrygginga en einnig með skattfé. Drýgstur hluti þess fjár gæti komið úr nýjum Auðlindasjóði sem um er rætt að setja á laggirnar.

En svo að það sé sagt alveg skýrt: Nýtt kerfi á ekki að byggja á afturvirkri skerðingu fyrri kerfa. Um þau samdi fólk og verður að geta gengið að þeim rétti vísum sem það iðulega fórnaði kauphækkunum til að öðlast. Það breytir því ekki að lífeyriskerfin verða að koma til endurskoðunar inn í framtíðina og ber að fagna þeirri umræðu sem nú er hafin í þessa veru.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×