Fótbolti

Matthías: Þetta er mikið tækifæri fyrir mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Matthías hefur loksins náð því markmiði að komast í atvinnumennsku.
Matthías hefur loksins náð því markmiði að komast í atvinnumennsku. Mynd/Vilhelm
„Fyrir svona tveimur vikum höfðu menn frá Start samband. Sögðust muna eftir mér frá því ég kom til þeirra árið 2009 og að þeir væru að leita að manni eins og mér. Þá fóru hjólin í gang og núna er allt klárt," sagði nýjasti liðsmaður norska liðsins Start, Matthías Vilhjálmsson.

FH lánaði Matthías til Start í gær fram að áramótum en kaupákvæði er í lánssamningnum. Start getur því keypt Matthías að ári liðnu ef það hefur áhuga á. Matthías framlengdi við FH til ársins 2013 áður en hann var lánaður. „Þá fær FH líklega eitthvað fyrir mig og mér finnst félagið eiga það skilið."

Start féll úr norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og ætlar sér beint upp aftur.

„Mér líst mjög vel á allt hérna. Þetta er stór klúbbur sem á að vera ofar. Ég fæ vonandi mikið að spila og get þar með sýnt að ég á vel heima hérna. Það er það eina sem skiptir mig máli," sagði hinn 25 ára gamli Matthías, sem hefur lengi stefnt á að komast í atvinnumennsku en hann hefur verið einn af bestu mönnum íslenska boltans.

„Það er ánægjulegt að þetta hafi gengið. Ég lít á þetta sem mikið tækifæri fyrir mig. Vonandi mun þetta skila mér langtímasamningi í atvinnumennsku, sama hvort það er hér eða annars staðar," sagði Matthías en hann tapaði aldrei trúnni á að hann kæmist út.

„Ég get alveg viðurkennt að eftir því sem árunum fjölgaði var þetta erfiðara. Þannig er bransinn."

Matthías fer með íslenska landsliðinu til Japans í næstu viku og þaðan heldur hann beint til La Manga á æfingar með Start.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×