Körfubolti

Hrafn vill sjá meiri hraða hjá KR-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafn Kristjánsson
Hrafn Kristjánsson Mynd/Stefán
Það er óhætt að segja að KR-ingar mæti með gerbreytt lið á nýju ári því Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, fær nú það verkefni að koma þremur nýjum erlendum leikmönnum inn í leik KR-liðsins. KR-ingar hafa samið við tæplega tveggja metra háa serbneska skyttu, Dejan Sencanski, sem bætist við Bandaríkjamennina Josh Brown og Rob Ferguson sem eru byrjaðir að æfa með liðinu.

„Þetta er ekki kjörstaða og ekki það sem lagt var upp með," segir Hrafn. Sencanski er 198 cm þriggja stiga skytta, Brown er 187 cm bakvörður og Ferguson er 203 cm kraftframherji.

„Ég býst alveg við því að þetta verði svolítið stirt hjá okkur á fimmtudaginn. Vonandi erum við að stefna í hraðari leikstíl og um leið leikstíl sem við höfum viljað vera að spila í allan vetur," segir Hrafn. KR sat í 7. sæti deildarinnar yfir hátíðarnar og Íslandsmeistararnir voru ekki að hrífa marga í síðustu leikjum sínum fyrir jól.

„Við erum ekkert að missa okkur því það eru bara fjögur stig í annað sætið. Það er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur á mánudaginn," segir Hrafn og er þar að tala um bikarleik á móti toppliði Grindavíkur.

„Hann skiptir gríðarlega miklu máli varðandi það að gefa okkur smá vinnufrið til þess að kýla liðið saman fyrir lokaátökin. Við erum ekki í þessu til þess bara að vera með. Við teljum okkur vera að taka skref til þess að verja titilinn og það eru öll önnur lið að því," segir Hrafn sem býst við breytingum hjá mörgum liðum í Iceland Express-deildinni.

„Það kæmi mér ekkert á óvart þó að það væri kominn inn aukamaður hjá helmingi liða deildarinnar ef ekki meira," sagði Hrafn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×