Körfubolti

Sjötti sigur Þórsara í röð og toppsætið tryggt yfir jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Erlendsson.
Grétar Erlendsson. Mynd/Valli
Þórsarar úr Þorlákshöfn eru áfram á toppi Dominos-deildar karla í körfubolta og verða það yfir jólahátíðina eftir fimm stiga sigur á Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld, 97-92.

Þórsliðið hefur nú unnið sex leiki í röð og er með jafnmörg stig og Grindavík en betri árangur úr innbyrðisleik liðanna.

Þetta var fyrsta deildartap Snæfells á heimavelli á þessu tímabili en liðið var búið að vinna fyrstu fimm heimaleiki sína í Dominos-deildinni í vetur.

Benjamin Curtis Smith var með 23 stig og 7 stoðsendingar hjá Þór og David Jackson bætti við 22 stigum og 9 fráköstum. Grétar Erlendsson skoraði mest Íslendinga eða 14 stig. Asim McQueen var atkvæðamestur hjá Snæfelli með 22 stig og 15 fráköst en Jay Threatt var með 20 stig og 8 stosðendingar og Jón Ólafur Jónsson skoraði 19 stig.

Snæfell byrjaði mun betur og komst meðal annars í 17-8 í upphafi leiks. Snæfell var hinsvegar aðeins einu stigi yfir eftir fyrsta leikhluta, 23-22.

Snæfell var áfram með frumkvæðið í öðrum leikhluta en Þór átti fínan endasprett í hálfleiknum og leiddi 48-44 í hálfleik.

Þórsliðið var síðan búið að ná ellefu stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann, 77-66.

Þór var með 91-79 forskot þegar tvær og hálf mínúta var eftir en Snæfell tókst að minnka muninn í þrjú stig í lokin og setja mikla spennu í lokakafla leiksins.

Þórsarar héldu út og fögnuðu mikilvægum sigri sem skilar þeim toppsæti deildarinnar fram á nýja árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×