Fótbolti

Rummenigge og félagar hjálpuðu Müller í baráttunni við Bakkus

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þýski markahrókurinn Gerd Müller hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Ástæðan er sú að argentínski snillingurinn Lionel Messi hefur slegið tvö met Müller sem einhver hefði talið ómögulegt að slá.

Müller átti metið í markaskorun á einu keppnistímabili en Lionel Messi sló metið í vor. Enn stóð met Müller yfir flest mörk á einu almanaksári. Metið var 85 mörk en Messi hefur skorað 90 mörk.

Í heimildarmynd frá Sky, sem hægt er að horfa á í spilaranum hér fyrir ofan, er fjallað um feril Müller og rætt við vini hans og liðsfélaga. Uli Höness, Karl-Heinz Rummenigge og Franz Beckenbauer, sem allir léku með Müller hjá Bayern og þýska landsliðinu, lofsyngja félaga.

Müller lauk knattspyrnuferli sínum í Bandaríkjunum en Rummenigge telur það hafa verið mistök. Þar hafi Müller ekki notið sín sem skyldi, hann hafi ekki talað stakt orð í ensku og þar hafi áfengisnotkun hans orðið að vandamáli.

Í myndinni greina þýsku kempurnar frá því þegar þær hittu Müller eitt sinn á flugvelli. Þá áttuðu þeir sig á því hve alvarlegt áfengisvandamál hans var orðið og komu vini sínum til bjargar.

Bayern München varð fjórum sinnum Þýskalandsmeistari og vann Meistaradeildina, sem þá var kölluð Evrópukeppni meistaraliða, þrívegis. Paul Breitner, einn fjögurra leikmanna sem skorað hefur í úrslitaleik tveggja heimsmeistarakeppna, hefur líkt og hinir mikið álit á Müller.

„Þýskaland hefði aldrei orðið heims- eða Evrópumeistari (1972 og 1974) án Gerd Müller," segir Breitner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×