Körfubolti

Umfjöllun og myndir: Stjarnan-KR 73-84 | Öll úrslit kvöldsins

Jón Júlíus Karlsson í Garðabæ skrifar
KR vann frábæran útisigur á Stjörnunni í níundu umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Lokatölur urðu 73-84 fyrir KR-ingum sem léku án nokkurs vafa sinn besta leik í vetur í kvöld.

Stjarnan byrjaði leikinn mun betur og skoraði fyrstu sex stig leiksins. KR-ingar náðu hins vegar að vinna sig inn í leikinn með kröftugri spilamennsku. Marvin Valdimarsson hjá Stjörnunni fékk dæmda á sig klaufalega tæknivillu um miðjan fyrsta leikhluta og var því kominn með þrjá villur. Hann var kallaður á bekkinn og við það riðlaðist sóknarleikur Stjörnunnar. KR-ingar gengu á lagið, börðust um alla bolta eins og ljón og voru verðskuldað yfir eftir fyrsta leikhluta, 12-23.

Ógöngur Stjörnumanna í sóknarleiknum héldu áfram í öðrum leikhluta. Heimamenn voru sérlega illa stemmdir fyrir framan körfuna og segir það sitt að liðið klúðraði fimm vítaskotum í röð í öðrum leikhluta. KR-ingar héldu áfram að berjast af miklum krafti og náðu mest 18 stiga forystu um miðbik annars leikhluta. Stjörnumenn sóttu aðeins í sig veðrið eftir því sem að leið á annan leikhluta og náði að minna forystu KR í 12 stig áður en flautað var til hálfleiks. KR-ingar voru baráttuglaðir undir körfunni og rifu niður mörg sóknarfráköst. Staðan í hálfleik, 33-45.

Það breyttist fátt í þriðja leikhluta þótt að Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, hefði messað vel yfir sínum mönnum í hálfleik. Sóknarleikur Stjörnunnar var bitlaus og það skorti allan kraft undir körfunni. KR-ingar héldu áfram að berjast vel og það skilaði þeim 15 stiga forystu fyrir lokaleikhluta, 52-67. Helgi Magnússon, þjálfari KR, setti tóninn fyrir lokaleikhlutann með því að setja niður tveggja stiga flautukörfu. Villuvandræði voru hins vegar farin á stjá hjá KR-ingum því bæði Martin Hermannsson og Finnur Atli Magnússon voru fengu sína fjórðu villu í þriðja leikhluta.

Þrátt fyrir að miklum krafti hefði verið eytt framan af leik hjá KR-ingum við að búa til gott forskot þá náðu Stjörnumenn aldrei að nálgast gestina úr Vesturbænum. Munurinn fór minnst niður í 8 stig á tímabili en alltaf náðu KR-ingar að spyrna sér aftur frá Stjörnunni þegar á reyndi. Þjálfarinn Helgi Már setti einnig niður mikilvæg skot þegar á reyndi. Niðurstaðan var frábær útisigur KR-inga 73-84 og ekki spurning að þetta var einn besti leikur liðsins í vetur, ef ekki sá besti.

Brynjar Þór var stigahæstur hjá KR með 21 stig, Helgi Már Magnússon með 21 stig og Martin Hermannsson átti skínandi góðan leik með 17 stig. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse stigahæstur með 25 stig. Hann hefur þó oft leikið betur en í kvöld. Brian Mills var með 19 stig og Dagur Kr. Jónsson með 14 stig. Leikur Stjörnunnar í kvöld var hins vegar mjög dapur, sérstaklega sóknarlega sem hefur verið þeirra aðalsmerki í vetur.

Brynjar Þór: „Okkar besti leikur í vetur"

„Þetta er klárlega okkar besti leikur í vetur," sagði Brynjar Þór Björnsson úr KR eftir sigur liðsins gegn Stjörnunni í kvöld. „Við fækkuðum töpuðu boltunum sem við vorum búnir að tala um að gera fyrir leikinn. Það munaði mikið um það. Við byrjuðum leikinn ekkert sérstaklega en um leið og við fórum að skora þá fannst mér við alltaf vera með þá í rassvasanum."

KR spilaði frábæra vörn í kvöld og Brynjar segir að allir hafi leikið fyrir liðið. „Það er góður liðsandi hjá liðinu þó að það hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel að undanförnu. Þó að við séum úr leik í bikarnum þá heldur tímabilið áfram og gott að rífa hausinn upp með þessum sigri."

Stjarnan sótti að KR í lokaleikhlutanum en gestirnir náðu að halda út og vinna góðan sigur. „Það var farið að draga af okkur í fjórða leikhluta. Justin (Shouse) er þeirra prímusmótor og okkur tókst að loka vel á hann í kvöld. Þó hann hefði skorað mörg stig þá var hann ekki að skila jafnmörgum stoðsendingum og venjulega. Stjarnan hefur verið að skora yfir 100 stig í mörgum leikjum í vetur og það er mjög ánægjulegt að halda þeim í 73 stigum."

„Það eru öll toppliðin búin að tapa nokkrum og ef við höldum áfram að vinna leiki þá verðum við í toppbaráttunni. Eftir áramót verðum við orðnir firnasterkir."

Dagur Kr.: „Skotnýtingin var alls ekki nógu góð“

„Þetta var skelfilegt hjá okkur. Við mættum vel stemmdir í leikinn og byrjuðum vel en missum svo dampinn í fyrsta leikhluta,“ segir Dagur Kr. Jónsson úr Stjörnunni sem skoraði 14 stig í kvöld.

„KR spilaði mjög vel í kvöld og var að setja niður ótrúlegustu skot. Á sama tíma vorum við að klúðra mjög auðveldum skotum. Við vorum mjög daprir í fyrri hálfleik en börðumst í seinni hálfleik. Við vorum ekki langt frá því að jafna þetta í lokin.“

Leikurinn hjá Stjörnunni í kvöld var líklega sá versti hjá liðinu í kvöld en liðið var í vandræðum með sóknarleikinn frá upphafi. „Skotnýtingin var alls ekki nógu góð og vítanýtingin skelfileg. Við vorum að búa til góð færi en það fór lítið niður. Við munum fara yfir það hvað við gerðum rangt í kvöld og laga það fyrir næsta leik á móti KFÍ.“



Hér að neðan má svo sjá öll úrslit kvöldsins.

Úrslit:

Njarðvík-Tindastóll 80-86 (22-28, 24-12, 20-18, 14-28)

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 18/5 fráköst/5 stoðsendingar, Nigel Moore 18, Marcus Van 17/15 fráköst, Ágúst Orrason 13/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 7, Hjörtur Hrafn Einarsson 4/6 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 2/4 fráköst, Friðrik E. Stefánsson 1/8 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Már Traustason 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Maciej Stanislav Baginski 0.

Tindastóll: George Valentine 21/7 fráköst, Drew Gibson 18/6 fráköst/11 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 16/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 14/10 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 7, Svavar Atli Birgisson 7, Ingvi Rafn Ingvarsson 3, Þorbergur Ólafsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Pétur Rúnar Birgisson 0, Helgi Freyr Margeirsson 0, Hreinn Gunnar Birgisson 0.

Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Einar Þór Skarphéðinsson, Davíð Tómas Tómasson

ÍR-Fjölnir 86-88 (28-19, 19-26, 17-24, 22-19)

ÍR: Eric James Palm 43, Nemanja Sovic 15/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 8/5 fráköst, Ellert Arnarson 6, Isaac Deshon Miles 5/5 fráköst, Hjalti Friðriksson 5/7 fráköst, Sveinbjörn Claessen 4, Tómas Aron Viggóson 0, Vilhjálmur Theodór Jónsson 0, Þorgrímur Emilsson 0.

Fjölnir: Paul Anthony Williams 23/4 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 20/4 fráköst, Jón Sverrisson 14/13 fráköst/3 varin skot, Arnþór Freyr Guðmundsson 14, Sylverster Cheston Spicer 8/10 fráköst, Gunnar Ólafsson 4, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2, Árni Ragnarsson 2/4 fráköst, Elvar Sigurðsson 1, Björn Ingvi Björnsson 0, Róbert Sigurðsson 0, Smári Hrafnsson 0.

Dómarar: David Kr. Hreidarsson, Ísak Ernir Kristinsson, Jakob Arni Isleifsson

Stjarnan-KR 73-84

Snæfell-Skallagrímur 98-81 (20-20, 33-19, 24-13, 21-29)

Snæfell: Pálmi Freyr Sigurgeirsson 25/4 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 21/6 fráköst/5 stoðsendingar, Jay Threatt 18/10 fráköst/9 stoðsendingar, Asim McQueen 14/13 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 14, Stefán Karel Torfason 4, Ólafur Torfason 2/7 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 0, Jóhann Kristófer Sævarsson 0, Sveinn Arnar Davíðsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0, Kristinn Einar Guðmundsson 0.

Skallagrímur: Carlos Medlock 28/5 fráköst, Haminn Quaintance 18/9 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Sigmar Egilsson 9/4 fráköst, Davíð Ásgeirsson 8, Orri Jónsson 6, Birgir Þór Sverrisson 4, Andrés Kristjánsson 3, Davíð Guðmundsson 3, Trausti Eiríksson 2/5 fráköst, Hjalti Ásberg Þorleifsson 0, Atli Aðalsteinsson 0, Elfar Már Ólafsson 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Halldor Geir Jensson

Bein textalýsing:

Leik lokið: 73-84 urðu lokatölur kvöldsins. Frábær sigur hjá KR.

39 min:
KR virðist vera að sigla þessu í hús. Þegar hálf mínúta er eftir er staðan 71-80 fyrir KR.

39 min:
Helgi Magnússon setur niður tvö vítaskot fyrir KR og kemur þeim í 10 stiga forystu þegar 1:12 er eftir á klukkunni. Stjarnan tekur leikhlé. Staðan er 70-80.

38 min:
Justin Shouse minnkar muninn niður í 8 stig þegar það eru tvær mínútur eftir. 68-76.

37 min:
Helgi Már Magnússon setti niður risastóran þrist fyrir KR og kom gestunum í 12 stiga forystu. 64-76.

36 min:
Stjarnan hefur farið illa með tvær góðar sóknir í röð. Það liggur þó á KR sem stendur. Það hefur mikill kraftur farið í það að búa til forystuna hjá KR og spurning hvort þeir hafi þrek til að klára leikinn með sigri. Staðan er 64-73.

35 min:
Stjörnumenn minnka muninn niður í 9 stig. Staðan er 64-73.

34 min:
Finnur Atli var að fá sína fimmtu villu og kemur því ekki meira við sögu í leiknum.

34 min:
Sjörnumenn hafa leikið fína vörn það sem af er lokaleikhlutanum. Þeir eru að nálgast KR-inga þó það gerist hægt. Staðan er 62-73 þegar KR-ingar taka leikhlé. Ná KR-ingar að halda út?

33 min:
Marvin Valdimarsson var að fá sína fjórðu villu.

32 min:
Stjarnan er að kvikna til lífsins. Staðan er 60-71.

30 min:
Helgi Magnússon, þjálfari KR, skorar tveggja stiga flautukörfu. KR leiðir 15 stigum, 52-67.

29 min:
KR-ingar eru komnir í villuvandræði. Bæði Martin Hermannsson og Finnur Atli Magnússon eru komnir með fjórar villur.

28 min:
Keegan Bell í liði KR hefur fengið að leika meira í kvöld en í undanförnum leikjum. Hann er búinn að skora 9 stig í kvöld. Staðan 49-65.

27 min:
Finnur Atli virðist vera búinn að ná sér og kemur aftur inn á völlinn. Hann byrjaði á því að fá sína fjórðu villu örfáum sekúndum eftir að hann snéri aftur völlinn.

26 min:
Staðan er 43-56 þegar fjórar mínútur eru eftir af þriðja leikhluta.

24 min:
Finnur Atli Magnússon hjá KR virðist hafa meiðst á læri. Hann þurfti að yfirgefa völlinn og var greinilega sárþjáður. Óvíst hvort að hann muni leika meira í kvöld. Það væri áfall fyrir KR-inga enda hefur Finnur leikið vel í kvöld.

23 min:
Liðin skiptast á að skora og illa gengur hjá Stjörnunni að minnka muninn. Staðan 39-53.

20 min:
Brynjar Þór Björnsson er stigahæstur hjá KR með 11 stig og Helgi Már Magnússon kemur næstur með 10 stig. Hjá Stjörnunni er Justin Shouse með 9 stig og Brian Mills með 8 stig.

20 min:
KR nær ekki að nýta sér síðustu sókn sína í öðrum leikhluta. Staðan því 33-45 þegar gengið er til búningsherbergja. KR-ingar hafa leikið skínandi vel í fyrri hálfleik.

19 min:
KR tekur leikhlé þegar sex sekúndur eru eftir af öðrum leikhluta. Staðan er 33-45.

18 min:
Brynjar Þór Björnsson hefur leikið vel í öðrum leikhluta og henti nú niður einum þrist. Jovan Zdravevski svaraði hins vegar með þrist hinu megin. Staðan þegar skammt er eftir er 31-45.



16 min:
Barátta KR-inga er mögnuð. Brynjar stal boltanum af Justin Shouse og að lokum hrökk boltinn til Martins Hermannssonar sem skellti í ljúfengan þrist. KR-ingar eru frábærir. Staðan er 22-40.

15 min:
Það fer ekkert niður hjá Stjörnunni í kvöld. Þeir klúðruðu fimm vítaskotum í röð sem segir sitt um skotnýtingu þeirra í kvöld. Staðan 19-37.

14 min:
KR-ingar slaka ekkert á og leiða með 16 stigum. Stjörnumenn eru þó aðeins að hressast eftir dapran leik. Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, er allt annað en sáttur á hliðarlínunni. Staðan 19-35.



11 min:
KR-ingar byrja annan leikhluta með tveimur þristum frá Keegan Bell og Helga Má Magnússyni. Staðan er 12-29.

10 min:
Fyrsta leikhluta lokið. Staðan er 12-23 fyrir KR. Gestirnir hafa mætt af miklum krafti í þennan leik. Stemmningin er öll þeirra megin sem stendur.

9 min:
Sóknarleikur Stjörnunnar hefur verið í molum í seinni hluta fyrsta leikhluta. KR-ingar eru einnig duglegir að hirða sóknarfráköst.



7 min:
Það er mikil ákefð í varnarleik KR-inga. Þeir eru jafnframt að spila betri sóknarleik en á fystu mínútum leiksins. Stjörnumönnum lýst ekki á blikuna og taka lékhlé. Staðan 10-20. Frábær leikkafli hjá KR.

6 min:
Dæmd er tæknivilla á Marvin Valdimarsson sem þar með er kominn með þrjá villur eftir aðeins sex mínútna leik. Honum er kippt útaf á Stjörnubekkinn. KR-ingar nýta sér það vel og komast yfir í leiknum, 10-12.

5 min:
Kristófer Acox á fyrstu troðslu leiksins. Hann stal boltanum og tróð snyrtilega. Staðan 10-8.



3 min:
Brynjar Björnsson kemur KR loksins á blað þegar 2:15 eru liðnar af leiknum.

2 min: Stjarnan byrjar leikinn mjög vel og hefur skorað fyrstu sex stig leiksins. Staðan 6-0.

1 min:
Brian Mills skorar fyrstu stig leiksins. Staðan 2-0.

1 min: Leikurinn er hafinn. KR vann uppkastið en náði ekki að skora í sinni fyrstu sókn. Kristófer Acox átti hins vegar svakalegt blokk fyrir KR í fyrstu sókn Stjörnunnar. Það lofar góðu.

0 min:
Leikmenn liðanna eru kynntir til leiks með stæðileg rauð nef. Það er í tilefni af degi Rauða nefsins sem er haldinn á morgun. Skemmtileg uppákoma sem fellur vel í kramið á áhorfendum.

0 min:
Áhorfendur eru farnir að flykkjast á völlinn. Þeirra á meðal er Hrafn Kristjánsson, fyrrum þjálfari KR. Hann þjálfar í dag yngri flokka hjá Stjörnunni.

0 min:
Stjarnan er á toppi deildarinnar með 12 stig ásamt Grindavík, Snæfelli og Þór Þ. KR er með 8 stig.

0 min:
Verið velkomin í beina textalýsingu frá leik Stjörnunnar og KR í Dominos-deild karla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×