Körfubolti

Búningarnir fundust eftir sextán ár - fóru í hreinsun 1996

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Heimasíða KFÍ
KFÍ segir frá skemmtilegum fundi á heimasíðu sinni en á dögunum kom í leitirnar búningasett meistaraflokks félagsins frá 1996. KFÍ-menn telja að búningarnir hafi verið settir í hreinsun fyrir sextán ár en þeir fundust ekki fyrr en í tiltekt á Slökkvistöð Ísafjarðar.

"Hermann Hermannson eðalmaður færði KFÍ búningana sem okkur grunar að Gísli Elís Úlfarsson okkar hafi farið með í hreinsun 1996. Hermann var að taka til á slökkvistöð Ísafjarðar og þar voru búningarnir tilbúnir þar. Það tók því aðeins 16 ár að fá þá heim í hús," segir í fréttinni á heimasíðu KFÍ.

Það rifja menn líka upp þá leikmenn sem voru að spila með liðinu á þessum tíma. Það voru menn eins og Guðni Ólafur Guðnason, Hrafn Kristjánsson, Magnús Gautur Gíslason, Ómar Ómarsson, Ingimar Guðmundsson, Pétur Már Sigurðsson, Finnur Þórðarson, Baldur Ingi Jónasson, Chiedu Odiadu og Derrick Bryant.

Margir þessara kappa eru enn að. Baldur Ingi er á fullu með KR-B, Frikki er að spila með Njarðvík í Dominos deildinni. Hrafn Kristjánsson þjálfar hjá Stjörnunni, Guðni Ólafur er í stjórn KFÍ og Pétur Sigurðsson er að þjálfa hjá KFÍ sem yfirþjálfari sem á sínum tíma var algjörlega óhugsandi enda sá sem sá um búningatöskuna.

Það vekur reyndar athygli að það er ekki sama auglýsing framan á þessum búningum því fyrirtæki gátu keypt einstakan búning og birt sitt merki framan á treyju ákveðins leikmanns liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×