Sport

Ennis vill komast yfir sjö þúsund stigin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sjöþrautarkonan Jessica Ennis, ein helsta íþróttastjarna Breta, hefur sett sér ný markmið eftir að hún vann gull á Ólympíuleikunum í London í sumar.

Ennis var eitt af andlitum Ólympíuleikanna í London og var gríðarleg pressa á henni fyrir sjöþrautarkeppnina í sumar. Hún skilaði sínu og vann gull á nýju bresku meti, 6955 stigum.

Aðeins þrjár konur hafa náð meira en sjö þúsund stigum í sjöþraut en Ennis vill komast í þann hóp. Heimsmetið, 7291 stig, á Jackie Joyner-Kersee frá Bandaríkjunum en Carolina Klüft frá Svíþjóð og hin rússneska Larisa Turchinskaya hafa einnig komist yfir sjö þúsund stiga múrinn.

„Innri hvatning verður allt öðruvísi eftir Ólympíuleikana," sagði Ennis í samtali við fjölmiðla í heimalandinu. „Maður verður bara að koma sér aftur af stað og byrja að hlakka til næsta stórmóts."

„HM verður stærsta mótið á næstas tímabili. Ég er enn bara 26 ára gömul og hef enn tíma til að ná meiri árangri. Þetta snýst um að setja sér ný markmið."

„Nú þegar ég hef uppfyllt mína Ólympíudrauma og er það frábært. Nú hlakka ég til HM á næsta ári og nýrra markmiða - eins og að komast yfir sjö þúsund stig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×