Fótbolti

Sölvi: Ég er bara að hugsa um FCK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samningur Sölva Geirs Ottsen við danska félagið FC Kaupmannahöfn rennur út í sumar en hann er ekki byrjaður að leita sér að nýju félagi.

Sölvi Geir hefur undanfarið fengið fá tækifæri hjá þjálfaranum Ariël Jacobs sem lýsti yfir óánægju sinni með íslenska landsliðsmanninn í dönskum fjölmiðlum á dögunum. Síðan þá hafa þeir fundað og hreinsað loftið.

„Við töluðum um ástandið og það er allt í góðu á milli okkar," sagði Sölvi í samtali við danska fjölmiðla.

„Hann útskýrði samt ekki fyrir mér hvað ég þyrfti að gera til að komast aftur í liðið. Ég veit bara að ég þarf að leggja mikið á mig á æfingum og vona að þjálfarinn sjái eitthvað sem hann geti notað," bætti hann við.

Sölvi er ekki ánægður með ástandið og vill auðvitað komast aftur í liðið.

„Það er mikil samkeppni í liðinu og ég legg mikið á mig á hverjum degi til að sýna þjálfaranum að ég eigi heima í byrjunarliðinu."

Hann sgeist ekki hafa velt framtíðinni fyrir sér. „Ég er bara að hugsa um FCK og allt annað getur beðið fram á næsta ár. Umboðsmaður minn sér um allt slíkt en ég er ánægður í FCK."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×