Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Stjarnan 108-115

Henry Birgir Gunnarsson í Ljónagryfjunni skrifar
Mynd/Valli
Stjarnan vann ævintýralegan sigur á Njarðvík í tvíframlengdum háspennuleik í Ljónagryfjunni í kvöld. Njarðvík fékk tvö tækifæri til þess að vinna leikinn en nýtti þau ekki.

Njarðvík náði 15 stiga forskoti snemma en Stjarnan var fljótt að saxa það forskot niður. Jafnræði var svo með liðunum allt til enda.

Njarðvík átti frábæra endurkomu og gat unnið leikinn en gerði ekki og því varð að framlengja. Ein framlenging dugði ekki til. Þá fékk Njarðvík aftur tækifæri til að vinna undir lokin en Elvar Friðriksson rann á blautu gólfinu rétt áður en hann ætlaði að taka skotið.

Í seinni framlengingunni gerði Kjartan Atli Kjartansson út um leikinn með tveim þristum og stolnum bolta.

Stjörnumenn máttu svo sannarlega hafa fyrir þessum sigri gegn ungu Njarðvíkurliði sem hefur augljóslega risastórt hjarta. Með smá meiri heppni hefði þeim tekist að landa tveim mikilvægum stigum í dag.

Spili liðið aftur á móti af sama krafti áfram munu klárlega koma fleiri sigrar í hús.

Teitur: Njarðvík er alltaf svona á móti mér

Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar og goðsögn í Njarðvík, gat ekki annað en brosað eftir þennan svakalega háspennuleik.

"Ég var einhverra hluta vegna aldrei mjög hræddur við að tapa þessum leik. Mér fannst við hafa hæfileikana og fleira til staðar svo við gætum klárað leikinn. Það er mikilvægt að vera með hershöfðingja eins og Justin inn á vellinum í svona leik enda er hann um 98 prósent vítaskytta," sagði Teitur sem gat ekki annað en hrósað Njarðvíkurliðinu.

"Þeir eru alltaf svona á móti mér. Berjast eins og brjálæðingar á móti mér. Það er auðvitað yndislegt en ef þeir myndu gera það í hverjum einasta leik þá þessi völlur að vera algjör gryfja. Justin segir að þetta sé allt mér að kenna því þeir vilji sýna sig fyrir mér strákarnir," sagði gamla Njarðvíkurkempan og glotti í kampinn.

"Varðandi leikinn verð ég að segja að ég er ekki ánægður með varnarleikinn hjá okkur. Við erum enn á ný að fá allt of mörg stig á okkur. Það var einhver að segja að við værum búnir að spara okkur 200 þúsund krónur í ferðakostnað með því að skilja varnarleikinn alltaf eftir heima."

Reynsluboltinn Kjartan Atli Kjartansson átti stóran þátt í þessum sigri. Hann setti niður tvær lykilkörfur í seinni framlengingunni og stal svo bolta á örlagastundu.

"Þú ert kannski ekkert að fara að treysta á Kjarra í 35 mínútur en hann kann leikinn rosalega vel. Veit hvar á að stela boltum og ég veit ekki hvað hann er búinn að búa til margar stórar körfur. Ég vona að ungu strákarnir fylgist með honum og læri eitthvað."

Elvar: Lögðum allt í þetta

Hinn ungi og stórefnilegi leikstjórnandi Njarðvíkinga, Elvar Friðriksson, fór hamförum í leiknum í kvöld og skoraði 36 stig.

"Þetta var mjög svekkjandi og ömurlegt að tapa eftir allt sem við höfðum lagt í þetta. Við vorum óheppnir að þessu sinni en svona er þetta bara," sagði Elvar svekktur eftir leik.

Elvar hefði getað klárað leikinn í fyrri framlengingunni en datt þá.

"Ég var kominn með opið skot. Það var bleyta á vellinum og ég datt þegar ég var að stilla mig af í skotið. Kjartan skorar svo góða þrista. Reyndar einn af glerinu sem hann kallaði ekki. Heppnin var með honum í þetta skiptið."

Njarðvík er með ungt lið og aðeins einn Kana í augnablikinu. Samt voru þeir ekki fjarri því að leggja frábært lið Stjörnunnar af velli.

"Það labbar enginn yfir okkur ef við sýnum hjarta og berjumst í öllum leikjum. Við sýnum vonandi meira af þessu í næstu leikjum."

Hér að neðan má lesa leiklýsingu leiksins.

Njarðvík-Stjarnan 108-115 (26-15, 20-35, 24-24, 19-15, 9-9, 10-17)

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 36/10 stoðsendingar, Marcus Van 27/27 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 23/4 fráköst, Ágúst Orrason 13/4 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 8/4 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 1.

Stjarnan: Justin Shouse 33/5 fráköst/12 stoðsendingar, Brian Mills 24/8 fráköst, Jovan Zdravevski 15/4 fráköst, Sæmundur Valdimarsson 13/5 fráköst, Marvin Valdimarsson 11/7 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 9/4 fráköst, Dagur Kár Jónsson 7, Sigurjón Örn Lárusson 3.

Leik lokið | Njarðvík-Stjarnan 108-115: Magnaður leikur.

Framlenging 2: 108-112 og 15 sek eftir. Leikhlé tekið og Stjarnan á boltann. Nánast ómögulegt verkefni fyrir Njarðvík sem hefði mátt nýta vítaskotin betur í þessari framlengingu.

Framlenging 2: Varið skot hjá Van en bolti dæmdur niður. Vafasamur dómur. 105-110 og 30 sek eftir. Þetta er að fjara út fyrir Njarðvík.

Framlenging 2: Stjarnan er að sigla þessu í höfn. Þristarnir hjá Kjartani Atla ansi dýrmætir. Elvar á línunni og minnkar í fjögur stig, 104-108. Njarðvík nær svo boltanum þegar 1:20 er eftir.

Framlenging 2: Maciek fer á línuna og klúðrar báðum skotum. Njarðvík nær frákastinu en skot Van geigar. Kjartan Atli með annan þrist og fer langt með að ísa þetta, 100-106 þegar 2 mín eru eftir. Ekkert ólöglegt við þennan þrist. Ekkert nema net.

Framlenging 2: Gamli maðurinn, Kjartan Atli, með kolólöglegan þrist. Setur hann í spjaldið og niður. Sá hann aldrei kalla spjaldið. 100-103. Fær að heyra það úr stúkunni fyrir að hafa ekki kallað spjaldið.

Framlenging 2: Hjörtur skorar fyrstu stigin af vítalínunni, 100-98. Jovan fer svo á línuna og jafnar. 100-100.

Framlengingu 1 lokið | Njarðvík-Stjarnan 98-98: Elvar rennur og missir boltann. Grátlegt fyrir drenginn. Kjartan Atli reynir langt skot en gengur ekki. Það þarf að framlengja enn á ný.

Framlenging: Shouse klúðrar þriggja stiga skoti en Stjarnan nær frákastinu. Mills setur niður körfu og fær víti að auki. Jafnar leikinn, 98-98, þegar 17 sek eru eftir. Leikhlé tekið. Njarðvík fær tækifæri til þess að klára leikinn á ný.

Framlenging: Van fer á línuna og setur bæði niður. 97-93. Er þetta að hafast hjá Njarðvík? Nei, segir Shouse og minnkar muninn í 97-95. Elvar fer á línuna með 44 sek eftir. Klúðrar fyrra skotinu en seinna gengur. 98-95.

Framlenging: Elvar kemur Njarðvík yfir á ný. Keyrir upp að körfa og boltinn kyssir glerið á leið niður. 29 stig komin hjá honum. Jovan klúðrar auðveldu sniðskoti og Njarðvík nær boltanum. 95-93 og mínúta eftir.

Framlenging: Shouse fer á línuna og setur bæði skotin niður. 93-93 og 1:40 mín eftir. Háspenna.

Framlenging: Heimamenn byrja framlenginguna betur. Van skorar fyrstu körfuna en Marvin jafnar. Hjörtur fer svo á línuna og setur bæði skotin niður. 93-91. 3.20 eftir.

Venjulegum leiktíma lokið | Njarðvík-Stjarnan 89-89: Framlengt í Ljónagryfjunni.

4. leikhluti: Mills ver skot Elvars þegar sekúnda er eftir. Ágúst með opið skot í lokin en hittir ekki. Það verður að framlengja hérna takk fyrir.

4. leikhluti: Elvar með þrist og jafnar, 89-89 þegar 30 sek eru eftir. Njarðvík vinnur boltann með 19 sek eftir. Leikhlé og rafmögnuð spenna. Þvílíkur leikur hjá Elvari.

4. leikhluti: 52 sek eftir og staðan 86-89. Erfitt en ekki óvinnandi fyrir heimamenn. Stjarnan með boltann.

4. leikhluti: Shouse fljótur að setja þrist í andlitið á heimamönnum. Reynsluboltarnir að halda Stjörnunni gangandi. Marvin smellir svo í þrist eftir mikinn darraðardans. 84-89 þegar 1:18 er eftir. Njarðvík tekur leikhlé.

4. leikhluti: Jovan léttir pressunni á Stjörnunni með góðri þriggja stiga körfu eftir leikhlé. Elvar tekur óskynsamlegt skot í kjölfarið sem siglir víðsfjarri körfunni. Vörnin heldur og Van skorar. 82-83 og 2 mín eftir.

4. leikhluti: Hjörtur með frábæran þrist. 80-80 og 4 mín eftir. Stemning í Ljónagryfjunni núna.

4. leikhluti: Marcus Van með troðslu sem kveikir í húsinu. Kannski er þetta neistinn sem Njarðvík þarf. 75-78.

4. leikhluti: Liðin halda áfram að haldast í hendur. Þetta verður fjörugur lokasprettur. Stjarnan heldur heimamönnum þó í seilingarfjarlægð. 73-78 og rúmar 7 mínútur eftir.

3. leikhluti búinn | Njarðvík-Stjarnan 70-74: Kaflaskipt. Njarðvík byrjaði betur en Stjarnan kom til baka og leiðir á nýjan leik. Brian Mills að koma til hjá gestunum og búinn að skora 19 stig eins og Shouse.

3. leikhluti: Fínn kafli hjá Stjörnumönnum sem komast aftur yfir, 63-67. Smá hiti að komast í leikmenn.

3. leikhluti: Þetta er hörkuleikur. Heimamenn grimmari í flesta bolta en Stjarnan sleppir þeim ekkilangt fram úr sér. Marcus Van að vakna til lífsins hjá Njarðvík og kominn með 13 stig. Staðan 61-57 og fimm mínútur eftir af leikhlutanum.

3. leikhluti: Heimamenn komnir aftur með forystu, 54-53. Þeir ætla ekki að gefa neitt eftir. Eldmessan hans Teits ekki að skila sér hér í upphafi. Hann var að klárlega að vonast eftir almennilegri byrjun á hálfleiknum.

3. leikhluti: Teitur, þjálfari Stjörnunnar, var augljóslega ekki sáttur með sína menn í hálfleik og hélt mikla og langa eldmessu fyrir sína menn sem komu seint út úr klefa. Njarðvík hefur seinni hálfleik eins og þann fyrri - með þristi. 49-50.

Hálfleikur | Njarðvík-Stjarnan 46-50: Ágúst Orrason með flautuþrist fyrir heimamenn. Hann hefur átt fínan leik en Elvar Friðriksson hefur verið kóngurinn í hálfleiknum með 20 stig. Mögnuð frammistaða. Justin Shouse er með 15 stig fyrir Stjörnuna og Jovan Zdravevski 10. Líf í þessu og vonandi spennandi seinni hálfleikur fram undan.

2. leikhluti: Þó svo forskotið sé horfið eru heimamenn ekkert hættir. Þeir girða sig í brók og halda áfram að berjast. Það má geta þess í framhjáhlaupi að hér mætast lið í Henson-búningi (Stjarnan) og eina liðið í deildinni sem ekki spilar í Henson en Njarðvík er í Errea. Stílbrot þarna á ferðinni. Heimamenn að hressast og Elvar Friðriksson sjóðandi. Kominn með 18 stig. 39-37 og 3 mín eftir.

2. leikhluti: Dagur Kár setur þrist og endurkoman fullkomnuð, 28-28. Hlutirnir fljótir að gerast í körfubolta. Stuðningsmenn Stjörnunnar taka við sér en ekki hefur enn heyrst bofs frá heimamönnum í stúkunni.

2. leikhluti: Liðin að hitta illa í upphafi annars leikhluta. Sérstaklega heimamenn enda er forskotið nánast farið. 28-25 eftir tæpar 4 mín.

1. leikhluti búinn | Njarðvík-Stjarnan 26-15: Heimamenn fóru algjörlega á kostum í fyrsta leikhluta. Mættu ákveðnir og tilbúnir. Slíkt hið sama verður ekki sagt um Stjörnuna. Mest náðu þeir fimmtán stiga forskoti. Þá ákvað Stjarnan að vera með og taka á.

1. leikhluti: Njarðvík komið með fimmtán stiga forskot, 24-9. Það fer allt niður hjá þeim. Stjarnan í tómu tjóni.

1. leikhluti: Hjörtur Einarsson setti niður huggulegan þrist og kom muninum í tíu stig, 19-9. Teitur verið hressari og tekur leikhlé.

1. leikhluti: Heimamenn að byrja mun betur. Ágúst Orrason og Elvar Friðriksson heitir. Stjörnumenn hálfvankaðir í upphafi leiks. Á að taka þetta með vinstri lykt af þessari byrjun hjá þeim. 16-9 eftir 5 mín.

1. leikhluti: Brian Mills opnaði leikinn á þrist fyrir gestina. Heimamenn fljótir að svara. Fáir áhorfendur í stúkunni. Líklega ekki nema um 100 manns. Það er helvíti dapurt. Hvað hefur fólk betra að gera en að kíkja á körfuna í kvöld? Staðan 7-3 fyrir Njarðvík eftir 2 mín.

Fyrir leik: Verið að kynna liðin til leiks. Styttist í þetta.

Fyrir leik: Blaðamanna"stúkan" í Njarðvík er ein sú skemmtilegasta á landinu. Hér er setið við lítið borð inn í áhaldageymslu. Alltaf stemning.

Fyrir leik: Þjálfari Stjörnunnar, Teitur Örlygsson, er auðvitað goðsögn hér í Ljónagryfjunni þar sem hann vann fjölda titla með grænum. Hann kann því vel við sig í húsinu en mun örugglega ekki gefa sínu gamla félagi neinn afslátt í kvöld.

Fyrir leik: Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar með 6 stig en Njarðvík í því næstneðsta með 2 stig. Stjarnan líklega með besta leikmannahópinn í deildinni á meðan Njarðvík teflir fram talsvert af fermingardrengjum. Þeir eru samt seigir og gætu bitið frá sér í kvöld.

Fyrir leik: Njarðvíkingar eru aðeins með einn Kana í kvöld en þeir létu annan þeirra fara á dögunum. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, tjáði Vísi hér áðan að von væri á nýjum Kana í næstu viku. Verið væri að ganga frá samningi við reyndan 31 árs gamlan leikmann sem meðal annars hefði spilað í Þýskalandi.

Fyrir leik: Starfsmenn Ljónagryfjunnar hafa stálminni og mundu aðgangsorðið að netinu. Það ætti því að vera lítið mál að lýsa því sem fyrir augu ber hér í kvöld.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Vaktin mætt til Njarðvíkur. Þarf ekki að koma mikið á óvart að það er hávaðarok á Suðurnesjunum. Hér er sem betur fer spilað innandyra. Leikmenn og fjölmiðlar að gera sig klára. Enn vantar stóla í blaðamannastúku og maður með kóða að internetinu hefur ekki fundist. Þetta ætti því vonandi allt að reddast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×