Fótbolti

Skúli Jón sænskur meistari með Elfsborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skúli Jón Friðgeirsson og félagar í Elfsborg eru sænskir meistarar í fótbolta eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli við Åtvidaberg í lokaumferðinni í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Elfsborg var með tveggja stiga forskot á Malmö FF fyrir lokaumferðina en Malmö tapaði 2-0 á móti AIK í dag og því skiptu úrslitin úr leik Elfsborg í raun engu máli.

Stefan Ishizaki kom Elfsborg í 1-0 á 30. mínútu og þannig var staðan þar til að Viktor Prodell tryggði Åtvidaberg 1-1 jafntefli á 76. mínútu. Þá var AIK komið í 2-0 á móti Malmö og ljóst í hvað stefndi.

Häcken tók annað sætið af Malmö með því að vinna 2-1 útisigur á Sundsvall.

Skúli Jón kom til Elfsborg fyrir tímabilið en var óheppinn með meiðsli. Hann var á bekknum í dag en kom ekki við sögu í leiknum. Skúli Jón náði að spila fimm leiki á tímabilinu og er því meistari annað tímabilið í röð því hann varð Íslandsmeistari með KR í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×