Körfubolti

Tindastólskaninn farinn að spila með ÍR - Fjögur lið skipta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isaac Miles hefur skipt úr Stjörnunni yfir í ÍR.
Isaac Miles hefur skipt úr Stjörnunni yfir í ÍR. Mynd/Stefán
Liðin í Dominosdeild karla í körfubolta eru farin að gera breytingar á bandarísku leikmönnum sínum og Karfan.is segir frá því í dag að fjögur þeirra hafa ákveðið að leita á ný mið. Þetta eru lið KFÍ, Fjölnis, Tindastóls og ÍR.

Christopher Matthews hefur leikið sinn síðasta leik með Fjölni. Matthews er meiddur og hefur samningi hans við Fjölni verið sagt upp. Matthews skoraði 30 stig í fyrsta leik en var aðeins búinn að skora samtals 37 stig í undanförnum fjórum deildarleikjum. Fjölnismenn ætla að fá nýjan leikmann í næstu viku.

Bandaríski bakvörðurinn D´Andre Jordan Williams verður ekki áfram með ÍR en hann er farinn heim af persónulegum ástæðum samkvæmt frétt á karfan.is. Isaac Miles, sem var látinn fara frá Tindastól á dögunum, hefur samið við ÍR og verður væntanlega með ÍR í kvöld þegar liðið mætir Stjörnunni í Ásgarði í Garðabæ.

Williams var með 9,4 stig og 7,2 stoðsendingar að meðaltali í fimm deildarleikjum með ÍR en hann var með 14 stig og 10 stoðsendingar í sigri á Grindavík á dögunum. Miles var með 10.5 stig og 5,8 stoðsendingar í fjórum deildarleikjum með Tindastól.

Ísfirðingar léku án Chris Miller-Williams í síðasta leik eftir að hann var látinn fara frá félaginu en KFÍ hefur nú samið við Tyrone Bradshaw sem spilaði með University of Southern Indiana. Bradshaw spilaði síðast í Þýskalandi hjá Licher Basket Bear í B-deildinni þar sem hann var með 14,7 stig, 7,8 fráköst og 3,0 varin skot að meðaltali í leik samkvæmt frétt á heimasíðu KFÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×